Viðskipti innlent

Orka Holding kaupir öll hluta­bréf Kredia Group Ltd.

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Leifur Haraldsson er einn stærsti eigandi Orku Holding.
Leifur Haraldsson er einn stærsti eigandi Orku Holding. Aðsend

Orka Holding hefur fest kaup á öllum hlutabréfum Kredia Group Ltd. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Orku Holding að félagið ætli sér að byggja upp annars konar viðskiptamódel en hefur verið hjá því undanfarin ár.

Orka stefnir á útgáfu alþjóðlegra greiðslukorta með betri virkni og minni tilkostnað en aðrir útgefendur korta bjóða upp á almennt. Þá mun Orka starfa í fjórum löndum til að byrja með en ætlað er að bjóða þjónustu fyrirtækisins um alla Evrópu.

„Hér á Íslandi munum við starfa undir vörumerkinu NúNú og bjóða upp á hagkvæma fjármögnun á sanngjarnan, einfaldan og þægilegan hátt. Fljótlega verður hægt að skrá sig fyrir kortum og munum við hefja afhendingar í júní,“ segir Leifur Haraldsson, forsvarsmaður og einn eigenda Orku Holding, um fyrirætlanir félagsins á íslenskum markaði.

Leifur var einn stofnenda Kredia Group Ltd. Á sínum tíma en hann sagði skilið við félagið í árslok 2013. Hann segist því þekkja ágætlega til fyrirtækisins en byggja eigi á öðru viðskiptamódeli héðan af.

„Undanfarin ár hefur viðskiptamódel Kredia Group Ltd. verið á skjön við flest okkar samfélagslegu gildi, hins vegar er viðskiptavinahópur Kredia Group mjög stór og hefur töluverða reynslu af því að nýta sér fjártækni í skammtímafjármögnun. Það er áhugavert fyrir fyrirtæki eins og Orka og NúNú sem einblína á fjártækni og smellpassar því fyrir plön okkar um útgáfu kreditkorta og einfalda og þægilega fjártækniþjónustu fyrir einstaklinga,“ segir Leifur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×