Erlent

Kveikja í símamöstrum vegna samsæriskenninga um 5G og Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Kveikt hefur veirð í símamöstrum sem þessu og eru þau sögð valda veikindum.
Kveikt hefur veirð í símamöstrum sem þessu og eru þau sögð valda veikindum. EPA/SASCHA STEINBACH

Yfirvöld Bretlands eiga í viðræðum við forsvarsmenn samfélagsmiðla um samsæriskenningar sem eru í dreifingu þar eftir að kveikt hefur verið í 5G möstrum á undanförnum dögum. Íkveikjurnar eru til komnar vegna samsæriskenningar um að 5G samskiptakerfið valdi meðal annars Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur.

Starfsmenn samskiptafyrirtækja hafa jafnvel staðið frammi fyrir hótunum frá fólki sem hefur kokgleypt þessa undarlegu samsæriskenningu. Meðal þeirra er borgarstjóri Liverpool, sem barst hótanir þegar hann sagði kenninguna undarlega.

Sú samsæriskenning hefur verið á flakki á samfélagsmiðlum að 5G möstur valdi heilsukvillum og komi niður á ónæmiskerfum fólks. Því hefur einnig verið haldið fram að útvarpsbylgjur frá möstrunum smiti fólk hreinlega af nýju kórónuveirunni. Sem er auðvitað ekki rétt.

Stephen Powis, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Bretlands, segir kenninguna vera „algjört kjaftæði“ og verstu mynd falskra frétta.

„Staðreyndin er sú að farsímakerfið er mjög mikilvægt okkur öllum og sérstaklega á þessum tímum þegar við erum að hvetja fólk til að vera heima og hitta ekki vini og vandamenn,“ sagði Powis samkvæmt Guardian.

Hann sagði kerfið sérstaklega mikilvægt vegna þess að starfsfólk neyðarþjónsta Bretlands og heilbrigðisstarfsmenn reiði sig á það. Því sé hann brjálaður yfir því að fólk sé að skemma innviðin sem eru algerlega nauðsynleg.

„Þetta er algjört kjaftæði og ég get ekki fordæmt þetta meira en það.“

Í frétt Guardian segir að frægt fólk hafi dreift samsæriskenningunni og þar á meðal söngkonan Anne-Marie og Amanda Holden, dómari í Britain's Got Talent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×