Viðskipti innlent

Fjöldi ferðamanna í maí einn sá mesti frá upphafi

Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru 37.212 erlendir ferðamenn frá landinu um Leifsstöð í maí síðastliðnum og er um að ræða einn af fjölmennustu maímánuðum frá upphafi talninga. Fjöldi ferðamanna hefur þrívegis áður verið um og yfir 35 þúsund í maí eða árin 2007, 2008 og 2009.

Í tilkynningu frá Ferðamálastofu segir að þegar bornar eru saman tölur frá maí í fyrra þarf að hafa í huga að þá hafði gosið í Eyjafjallajökli veruleg áhrif á umferð til og frá landinu. Því eru sveiflur miklar á milli ára. Um er að ræða 31,5% aukningu ferðamanna frá því í maí á síðasta ári, en að meðtöldum 1.300 brottförum í maí í fyrra um Akureyrarflugvöll er aukningin 25,7%. Gosið í Grímsvötnum virðist hins vegar ekki hafa haft umtalsverð áhrif á flugsamgöngur til og frá landinu.

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í maí frá Bandaríkjunum (13,8%), Noregi (12,3%), Danmörku (9,2%), Bretlandi (9,1%), Þýskalandi (8,2%) og Svíþjóð (7,9%). Samanlagt voru Norðurlandabúar um þriðjungur ferðamanna í maí.

Alls hafa 141 þúsund erlendir ferðamenn farið frá landinu það sem af er ári eða 24.400 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Að viðbættum 2.300 brottförum erlendra gesta í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll í apríl og maí á árinu 2010 nemur fjölgunin 18,6%. Aukning er frá öllum mörkuðum, langmest frá N-Ameríku eða 46,2%. Þar næst kemur Mið- og Suður Evrópa með 26,8% aukningu og í þriðja sæti koma Norðurlöndin með tæplega 27% aukningu. Aukning frá Bretlandi mælist minni eða tæp 8% og um 11% frá löndum sem talin eru sameiginlega og flokkast undir ,,annað“.

Brottförum Íslendinga fjölgaði um þriðjung í maí frá því í fyrra, voru um 31 þúsund í ár en um 23 þúsund í fyrra. Brottförum Íslendinga frá áramótum hefur fjölgað um tæplega fjórðung í samanburði við sama tímabil árið 2010.

Framundan eru stærstu ferðamannamánuðir ársins. Talsverðar væntingar eru til sumarsins og er talið að met verði slegið í komum erlendra ferðamanna til landsins. Ísland hefur fengið mikla umfjöllun í tengslum við gosið í Grímsvötnum, sem að langmestu leyti virðist ætla að skila sér á jákvæðan hátt fyrir ferðaþjónustuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×