Viðskipti innlent

FME kærir félag til efnahagsbrotadeildar

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur kært félag til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir brot á lögum um verðbréfaviðskipti. Um er að ræða meinta markaðsmisnotkun með ríkisskuldabréf.

Fjallað er um málið á vefsíðu FME. Þar segir að í því tilfelli sem hér um ræðir áttu sér stað viðskipti og tilboð um viðskipti með nokkra flokka ríkistryggðra skuldabréfa. Þann 22. september 2010 urðu mikil viðskipti á skuldabréfamarkaði, dagsveltan náði sínu hæsta gildi frá október 2008 og verð lækkaði umtalsvert. Dagana áður hafði verð einnig lækkað en fram að þeim tíma hafði verð óverðtryggðra skuldabréfaflokka hækkað nær samfellt frá ársbyrjun 2010.

Eftir að lokunaruppboð hófst þann 22. september 2010 setti hinn kærði, fyrir hönd félags síns, inn lítil kauptilboð í nokkra flokka ríkistryggðra skuldabréfa á verði sem var hærra en síðasta viðskiptaverð. Öll tilboðin nema eitt urðu að viðskiptum en það ákvarðaði þó opinbert dagslokaverð þar sem um kauptilboð á hærra verði en síðasta viðskiptaverði var að ræða. Í athugun Fjármálaeftirlitsins kom í ljós að fjármálafyrirtæki hafði gert veðkall á félagið tvisvar þennan sama dag.

Með tilliti til þess hversu mikill verðmunur var á kauptilboðunum/viðskiptunum í lokunaruppboðinu og fyrri viðskiptum og með hliðsjón af því hversu lítil tilboðin voru sem og þeim veðköllum sem voru gerð á félagið taldi Fjármálaeftirlitið vera rökstuddan grun um að háttsemin fæli í sér markaðsmisnotkun og að hinir kærðu hefðu brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti..

Samkvæmt ákvæðum laganna getur það varðað sektum eða fangelsi allt að sex árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn lögum um markaðsmisnotkun.

Með vísan til nefndra lagaákvæða og atvika málsins ákvað Fjármálaeftirlitið að vísa bæri málinu til ríkislögreglustjóra, að því er segir á vefsíðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×