Handbolti

Arnór: Danir þurfa fyrst að vinna okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Atlason í leik með félagsliði sínu, FC Kaupmannahöfn.
Arnór Atlason í leik með félagsliði sínu, FC Kaupmannahöfn. Mynd/Birkir Baldvinsson
Arnór Atlason gefur lítið fyrir yfirlýsingar Dana um að vinna gullið á EM í Noregi. Þeir verði fyrst að vinna íslenska liðið.

Arnór leikur með toppliðinu í dönsku deildinni, FC Kaupmannahöfn, og þekkir því afar vel til danska landsliðsins.

„Þeir eru búnir að gefa það út að þeir ætla að vinna gullið. En ef þeir mæta okkur á mótinu vinna þeir ekki þann leik - það get ég alveg fullyrt."

Danir hafa náð tveimur bronsverðlaunum á síðustu tveimur stórmótum. „Það er gríðarlega mikill handboltaáhugi í Danmörku og eftir að stelpunum fór að ganga illa er karlalandsliðið orðið aðalnúmerið."

Það er þó enn tvísýnt um þátttöku Arnórs þar sem hann á við meiðsli í hné að stríða.

„Ég meiddist í leikjunum gegn Ungverjum í lok október og var frá í smá tíma eftir það. En síðan ég byrjaði aftur að spila hef ég ekkert fundið fyrir meiðslunum fyrr en ég fékk hnykk á hnéð á æfingu á miðvikudaginn. Ég mun taka því rólega á næstu dögum og fer væntanlega í læknisskoðun í dag. Ákvörðun um framhaldið verður svo tekin eftir það."

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Arnór lendir í meiðslavandræðum fyrir stórmót. Hann hefur í raun ekki verið heill á stórmóti síðan á hans fyrsta móti, á HM í Túnis árið 2005.

„Ég var með rifinn liðþófa í Sviss og fór í aðgerð strax eftir mótið. Í Þýskalandi var ég í vandræðum með hælinn sem var að plaga mig allt mótið. En það þýðir ekkert að sökkvað sér í volæði heldur bara vona það besta."

Fyrsti leikur Íslands á EM verður gegn Svíum. Arnór þekkir einnig vel til sænska landsliðsins.

„Ég er með mörgum Svíum í liði, meðal annarra Martin Boquist sem hefur verið að tala um þennan leik síðan það var dregið. Ég veit fyrir víst að þeir eru skíthræddir við okkur. En þeir vilja hefna fyrir tapið í undankeppni HM 2007. Ég tel hins vegar að ef við byrjum vel munu þeir fara á taugum. Ef við mætum á tánum og byrjum vel þá vinna þeir okkur ekki."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×