Handbolti

Danir unnu Þjóðverja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lasse Boesen í leik gegn íslenska landsliðinu á HM í Þýskalandi í fyrra.
Lasse Boesen í leik gegn íslenska landsliðinu á HM í Þýskalandi í fyrra. Nordic Photos / AFP

Danir unnu í dag heimsmeistara Þjóðverja í æfingaleik í Árósum í dag, 30-26. Þýskaland hafði eins marks forystu í hálfleik, 16-15.

Danir þykja með sigurstranglegri liðum á EM í Noregi og úrslitin í dag ýta aðeins undir það.

Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þýskalands, notaði þó leikinn í dag til þess að prófa ýmisar leikaðferðir og leyfði öllum leikmönnum liðsins að spreyta sig.

Þá eru margir leikmenn Þýskalands meiddir, svo sem Florian Kehrmann, Pascal Hens og Christian Zeitz.

Danir komust í fimm marka forystu í fyrri hálfleik, 11-6. Þjóðverjar bitu þó frá sér og náðu sem fyrr segir að tryggja sér eins marks forystu þegar flautað var til hálfleiks.

Um miðbik síðari hálfleiks breyttu heimamenn stöðunni úr 20-21 í 28-24 og dugði það til að tryggja Dönum sigur.

Lasse Boesen var markahæstur Dana með átta mörk, Michael Knudsen skoraði sex og Lars Christiansen fimm.

Hjá Þjóðverjum var Oleg Velyky markahæstur með sex mörk en þeir Holger Glandorf og Andrej Klimowets skoruðu fjögur mörk hver.

Liðin mætast öðru sinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×