Handbolti

Alex: Vil fara í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson er hér með Ólafi Stefánssyni, félaga sínum í landsliðinu.
Alexander Petersson er hér með Ólafi Stefánssyni, félaga sínum í landsliðinu. Mynd/Vilhelm
Alexander Petersson segir í viðtali við Vísi að hann stefni á undanúrslit á EM í Noregi með íslenska landsliðinu.

„Möguleikar okkar eru góðir en við getum líka auðveldlega tapað öllum leikjunum. Þannig er það bara í EM, þarna eru samankomin bestu liðin í heiminum. En ég myndi vilja komast að minnsta kosti í undanúrslit keppninnar," sagði Alexander.

Og hann segir að þetta sé vel raunhæft. „Með smá hepppni og ef allir leikmenn haldast heilir getum við vel náð þessum árangri."

Helsta umræðuefnið í aðdraganda mótsins er varnarleikur liðsins og markvarsla. „Jú, þetta tvennt er ákveðið vandamál. Ég held að Sverre verði með okkur en veikindin hans munu örugglega setja strik í reikninginn. En við erum með góða leikmenn og ef við verðum grimmir í okkar varnarleik held ég að það verði ekkert of stórt vandamál."

„Ég hef meiri áhyggjur af markvörslunni. En að sama skapi má segja að ef vörnin verði góð gæti markvarslan fylgt í kjölfarið."

Alexander hefur undanfarið átt við meiðsli að stríða en hann mun æfa með íslenska liðinu í dag á nýjan leik.

„Ég er núna búinn að fá hvíld í rúma viku sem hefur verið kærkomin. Mér líður mun betur. Ég veit ekki hversu mikið ég get spilað í leikjunum gegn Tékklandi en það verður örugglega eitthvað."

Ísland mætir Tékklandi í tveimur æfingaleikjum á morgun og á mánudag en það verður lokaleikur liðsins fyrir EM sem hefst á fimmtudaginn næstkomandi.

Alexander er á mála hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Flensburg þar sem hann er á sínu fyrsta tímabili.

„Flensburg er auðvitað topplið með tvo leikmenn í hverri stöðu og það er gott að þurfa ekki að spila 60 mínútur í hverjum einasta leik."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×