Handbolti

Gæti spilað á EM ári eftir heilaskurðaðgerð

Jens Tiedtke, leikmaður þýska landsliðsins.
Jens Tiedtke, leikmaður þýska landsliðsins. Nordic Photos / Bongarts

Árið hjá línumanninnum þýska Jens Tiedtke hefur verið viðburðarríkt. Fyrir ári gekkst hann undir heilaskurðaðgerð en svo gæti farið að hann spili með þýska landsliðinu á EM í næstu viku.

Í október árið 2006 fékk Tiedtke þær slæmu fréttir að hann væri með heilaæxli. Ljóst var að hann þurfti að gangast undir erfiða aðgerð.

Í stuttu máli sagt gekk aðgerðin fullkomnlega og fékk hann þær góðu fréttir nokkrum mánuðum síðar að hann mætti spila handbolta á nýjan leik.

Það var svo í apríl í fyrra sem hann spilaði í fyrsta sinn á nýjan leik með félagsliði sínu, Grosswallstadt. Áhorfendur hylltu hann vel og lengi er hann tók sín fyrstu skref á vellinum.

Vegna veikindanna missti Tiedke af heimsmeistarakeppninni í heimalandi sínu en vegna góðrar frammistöðu með liði sínu í haust ákvað Heiner Brand landsliðsþjálfari að velja hann í EM-hópinn sinn.

Það er þó ekki enn fullvíst hvort hann verði með á EM þar sem Brand þarf að skilja eftir einn línumann af þeim þrem sem eru í hópnum í dag.

„Árið 2008 verður frábært þar sem bæði EM og Ólympíuleikarnir eru á dagskrá. Ég vona að ég geti hjálpað þýska liðinu eitthvað. Ég vil spila eins vel og ég get til að gera ákvörðun Heiner eins erfiða og mögulegt er."

Tiedtke vill lítið ræða um fortíðina en sagði þó að stórmótin á árinu hafi hjálpað sér í bataferlinu. „Ég vonaðist alltaf til að fá mitt tækifæri á nýjan leik. Það var það sem dreif mig mest áfram."

„Ef ég fengi að spila í Noregi væri það frábært því enginn bjóst við því að það yrði mögulegt. Ég er ánægður með að Heiner Brand gaf mér tækifæri til að sýna hvað í mér býr og verðum við núna að bíða og sjá hvað gerist."

Þjóðverjar mæta Dönum um helgina og á mánudaginn mun svo Brand velja endanlegan EM-hópinn sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×