Viðskipti innlent

Gefa starfsmönnum 150 milljónir vegna kórónuveiruálags

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa.
Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa. samkaup

Stjórn Samkaupa hefur samþykkt að verja um 150 milljónum króna í aðgerðarpakka til starfsfólks fyrirtækisins. Pakkinn er sagður ná til allra 1400 starfsmanna samsteypunnar, sem starfa í 61 verslun um land allt; meðal annars Nettó, Kjörbúðinni, Krambúðinni, Iceland og Samkaup Strax.

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa, greindi frá pakkanum í Bítinu í morgun. Hann felur meðal annars í sér aukinn afslátt af matvöru í verslunum fyrirtækisins, mánaðar sjónvarpsáskrift, páskaegg og „andlega upplyftingu“ hjá Heilsuvernd. Þá fá starfsmenn auka orlofsdag á launum.

Þar að auki munu starfsmennirnir fá annars konar uppbót, eftir að faraldrinum lýkur. Gunnur segir að sá hluti sé með áherslu á sumarorlof starfsmanna og er unninn með samstarfsaðilum Samkaupa svo sem hótelum, veitingastöðum, bílaleigum, kvikmyndahúsum og svo framvegis.

„Það hefur verið gríðarlegt álag á starfsfólki Samkaupa síðustu vikur, sérstaklega í því ástandi sem nú ríkir, og því mikilvægt að við hlúum vel að því. Starfsfólkið okkar hefur unnið kraftaverk síðustu vikur og ég get ekki hrósað því nógu mikið. Það hefur sýnt ótrúlega þrautseigju og baráttuanda. Það minnsta sem við getum gert er að gefa til baka,“ segir Gunnur.

„Starfsmenn okkar eiga svo sannarlega skilið að slaka á og njóta lífsins þegar að þessi vírus er genginn yfir. Við vonumst til þess að þeir nýti þessar ávísanir til að skoða þetta fallega land sem við búum á. Það er einnig von okkar að þetta gagnist þeim atvinnugreinum sem hafa verst farið út þessum faraldri og þannig leggi Samkaup sitt af mörkum,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa.

Klippa: Bítið - Gunnur Líf Gunnarsdóttir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×