Lífeyrissjóður verslunarmanna, eigandi 13,3% hlutafjár í N1, lýsir undrun sinni á ákvörðun stjórnar N1 um launahækkun forstjóra félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sjóðsins.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að laun og hlunnindi Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra N1, hækkuðu um 20,7 prósent í fyrra samanborið við árið áður samkvæmt ársreikningi félagsins. Laun og hlunnindi fjögurra framkvæmdastjóra fyrirtækisins hækkuðu auk þess á sama tíma um tæp 16 prósent.
Þá kemur fram í tilkynningu frá lífeyrissjóðnum að honum hafi ekki verið kunnugt um launahækkun forstjórans fyrr en upplýsingar birtust í ársreikningi félagsins og í fjölmiðlum.
„Í starfskjarastefnu N1 hf. kemur fram að kjör forstjóra skuli vera samkeppnishæf og taka mið af hæfni, ábyrgð og umfangi starfans. Lífeyrissjóðurinn telur það orka mjög tvímælist hvort fjárhæð launa forstjóra og hækkun þeirra samræmist þessum viðmiðum og þeim sjónarmiðum sem hluthafastefna sjóðsins byggir á,“ segir enn fremur í tilkynningu.
Þá hefur komið fram að Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, frétti af launahækkunum forstjóra N1 í fjölmiðlum. Gildi lífeyrissjóður er næststærsti hluthafi N1 á eftir Lífeyrissjóði verslunarmanna.
Lífeyrissjóður verslunarmanna furðar sig á launahækkun forstjóra N1

Tengdar fréttir

Forstjóri N1 hækkaði um milljón á mánuði
Laun og hlunnindi fimm helstu stjórnenda N1 hf. námu rúmum 210 milljónum króna í fyrra og hækkuðu um nærri 30 milljónir milli ára. Laun og hlunnindi forstjórans hækkuð um 20,7 prósent, eða sem nemur rúmri milljón á mánuði

Frétti af launahækkun forstjórans í fjölmiðlum
Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, segir sjóðinn ekki hafa náð að líta á launahækkun forstjóra N1. Gildi er einn stærsti hluthafi olíufélagsins.

Leggja til að starfsmenn N1 fái sömu hækkun og forstjórinn
Stjórn VR hefur samþykkt að leggja fram tillögu á aðalfundi N1 um að öllum starfsmönnum fyrirtækisins skuli tryggð sama kjarahækkun og forstjóri félagsins fékk á liðnu ári.