Viðskipti innlent

Óbreyttir stýrivextir hjá Seðlabankanum

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að breyta ekki stýrivöxtum bankans nú. Þeir verða áfram 13,75 prósent.

Þetta er í samræmi við spár greiningardeilda Glitnis og Landsbankans. Kaupþing hafði hins vegar búist við stýrivaxtalækkun. Kaupþingsmenn lýstu nýverið þeirri skoðun sinni að lækkuðu vextir ekki hratt mætti hér gera ráð fyrir mjög harðri lendingu í efnahagslífinu.

Haft var eftir Ásgeiri Jónssyni, forstöðumanni greiningardeildar Kaupþings, í Markaðnum í gær að vextir hér væru mjög háir og álíti deildin að verulega áhættusamt sé að halda þeim mjög háum með því markmiði að lækka þá mjög hratt síðar. Hann reiknað því með allt að 50 punkta lækkun í dag.

Glitnir taldi á móti að rökin fyrir óbreyttu vaxtastigi væru þau að Seðlabankinn myndi horfa til óvissuþátta, svo sem niðurstöðu kjarasamninga og spennu á vinnumarkaði. Myndi bankinn því ekki lækka vextina fyrr en eftir tvo mánuði og þá um 25 punkta.

Landsbankinn telur hins vegar að Seðlabankinn fylgist með þróun mála hjá Evrópska seðlabankanum. Lækki stýrivextir þar geti það haft áhrif hér líkt og fram kom í Markaðnum í gær. Þar var jafnframt haft eftir Eddu Rós Karlsdóttur, forstöðumanni greiningardeildar Landsbankans, að hún telji líklegt að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti í næsta mánuði utan skipulagðra vaxtaákvörðunardaga.

Í frétt sem Seðlabankinn birtir á heimasíðu sinni eftir kl. 11 í dag verða rökin að baki ákvörðunar bankastjórnar kynnt. Talsmenn atvinnulífsins hafa að undanförnu þrýst á lækkun í tengslum við gerð nýrra kjarasamnings.

Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 10. apríl.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×