Viðskipti innlent

Tveimur núllum ofaukið í svari efnahags- og viðskiptaráðherra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Páll Árnason er efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason er efnahags- og viðskiptaráðherra.
Það skeikaði tveimur núllum í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um eign Íslendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum erlendis. Fram kom í svarinu sem birtist á vef Alþingis í gær, og Vísir sagði frá, að eign Íslendinga í erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum næmi tæpum 900 milljörðum króna. Í leiðréttu svari kemur hins vegar fram að upphæðin nemur 9 milljörðum króna. Tölur efnahags- og viðskiptaráðherra eru fengnar úr Seðlabankanum.

Þar fengust þær upplýsingar að með beinni erlendri fjárfestingu Íslendinga er eingöngu átt við erlend dótturfyrirtæki í eigu fyrirtækja sem skrásett eru á Íslandi og Íslendinga sem búsettir eru á Íslandi. Fjárfestingar erlendra dótturfyrirtækja í eigu innlendra aðila í öðrum erlendum dótturfyrirtækjum falla því utan þessarar skilgreiningar og eru mældar í viðkomandi landi þó vissulega hafi afkoma þeirra áhrif á afkomu erlendu dótturfyrirtækjanna í eigu innlendra aðila og skili sér þannig til innlends móðurfyrirtækis.

Seðlabankinn segir einnig að bein fjármunaeign í fyrirtæki samanstandi af hlutdeild í bókfærðu eigin fé þess og hreinni lánastöðu gagnvart því. Í þessu fylgi Seðlabanki Íslands alþjóðlegum stöðlum OECD og IMF. Mikilvægt sé að greina á milli upplýsinga um bókfært verð annars vegar og markaðsverð hins vegar.

Fréttin, sem birtist á Vísi í gær, um fjármunaeign Íslendinga í erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum hefur nú verið fjarlægð af Vísi, enda byggði hún á röngum upplýsingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×