Viðskipti innlent

Sektuð um 405 milljónir fyrir brot á samkeppnislögum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bónus er þekktasta eign Haga
Bónus er þekktasta eign Haga
Samkeppniseftirlitið mun sekta Haga og sex kjötvinnslufyrirtæki um samtals 405 milljónir króna fyrir brot á samkeppnislögum.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækin hefðu gerst sek um samkeppnishamlandi samvinnu um ferð með tvíhliða samningum eða samstilltum aðgerðum í tengslum við smásöluverðlagningu á kjöti og unnum kjötvörum sem kjötvinnslurnar höfðu verðmerkt fyrir Haga.

Eftir að fyrirtækjunum var kynnt frumniðurstaða Samkeppniseftirlitsins í málinu sneru þau sér hvert í sínu lagi til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir því að ljúka málinu með sátt. Á þeim grundvelli nýtti Samkeppniseftirlitið heimild samkeppnislaga og gerði sátt við fyrirtækin. Í þeim felst m.a. að fyrirtækin viðurkenna brot á 10. grein samkeppnislaga og greiða sekt vegna þeirra.

· 27. september sl. var gerð sátt við Haga. Greiða Hagar 270 m.kr. í stjórnvaldssekt.

· 1. október var gerð sátt við Sláturfélag Suðurlands og Reykjagarð en þessi fyrirtæki eru hluti af sömu fyrirtækjasamstæðu. Greiða þau 45 m.kr. samtals í stjórnvaldssekt.

· 1. október var gerð sátt við Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga. Greiðir félagið 40 m.kr. í stjórnvaldssekt.

· 6. október var gerð sátt við Norðlenska og greiðir fyrirtækið 30 m.kr. í stjórnvaldssekt.

· 8. október var gerð sátt við Kjarnafæði og greiðir fyrirtækið 20 m.kr. í stjórnvaldssekt.

· 12. nóvember sl. var gerð sátt vegna Kjötbankans. Í henni voru viðurkennd brot fyrirtækisins. Forsendur voru hins vegar ekki til álagningar sekta m.a. vegna gjaldþrots Kjötbankans.

Síld og fiskur og Matfugl óskuðu eftir sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið en þær viðræður skiluðu ekki niðurstöðu. Þáttur þessara fyrirtækja er því enn til rannsóknar. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem birt er í dag, tekur aðeins til þeirra fyrirtækja sem gert hafa sátt við eftirlitið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×