Viðskipti innlent

Gömlu eigendurnir eignast helming á ný

Fyrirhugað er að ÍAV ljúki framkvæmdum við tónlistarhúsið Hörpu í kringum maí á næsta ári. Fréttablaðið/anton
Fyrirhugað er að ÍAV ljúki framkvæmdum við tónlistarhúsið Hörpu í kringum maí á næsta ári. Fréttablaðið/anton
Karl Þráinsson, forstjóri Íslenskra aðalverktaka (ÍAV), og Gunnar Sverrisson framkvæmdastjóri hafa hvor um sig keypt 25 prósenta hlut í ÍAV. Þeir voru meðal aðaleigenda ÍAV sem misstu hlut sinn til kröfuhafa í fjárhagslegri endurskipulagningu í mars. Hinn helminginn á svissneska verktakafyrirtækið Marti Con­tractors, sem yfirtók verktakahluta ÍAV í mars síðastliðnum.

„Forráðamenn Marti Contractors hafa ekki viljað fjarstýra fyrirtækinu frá Sviss. Þeir leggja mikla áherslu á að það sé rekið á íslenskum forsendum og af Íslendingum. Það er á þeim forsendum sem við komum að félaginu," segir Gunnar.

Marti vann með ÍAV að gerð Óshlíðarganga og fleiri verkefnum og hafa starfsmenn ÍAV farið utan til að vinna með starfsmönnum Marti. Eftir því sem næst verður komist höfðu eigendur ÍAV frumkvæðið að því að Marti Con­tractors tæki yfir reksturinn í vor.

Samkvæmt tilkynningu ÍAV til Ríkisskattstjóra skipti félagið um kennitölu og tók upp nafnið IP verktakar í júní í fyrra. Á sama tíma settist Bernard Schleich í stól stjórnarformanns fyrir hönd Marti Contractors. Nafni félagsins var breytt aftur í Íslenska aðalverktaka í september á þessu ári þegar hlutafé var aukið um tæpar fjögur hundruð milljónir. Eftir því sem næst verður komist lögðu þeir Gunnar og Karl til hlutaféð. Gunnar segir trúnaðarmál hvað þeir greiddu fyrir helmingshlut í ÍAV.

Fjárhagsstaða gamla ÍAV er óljós. Í lánabók Kaupþings sem lekið var á netið kemur fram að skuld­bindingar ÍAV og tengdra félaga námu 147,7 milljónum evra, jafnvirði 23 milljarða króna, í lok septem­ber 2008. Arion banki tók yfir 82 prósent í félaginu í mars á móti Byr og varð hlutur fyrrverandi eigenda að engu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í vor að ÍAV og móðurfélag þess hefðu lítið greitt af lánum frá því haustið 2008 og þau safnað miklum vöxtum. Rætt var um það í kringum uppstokkunina að Arion banki gæti þurft að afskrifa hátt í þrettán milljarða króna vegna lána til ÍAV.

jab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×