Handbolti

Ágúst: Getum brotið blað í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Ágúst Jóhannsson.
Ágúst Jóhannsson. Mynd/Stefán
„Það gengur ágætlega að skipuleggja þetta. Æfingin í kvöld var ágæt þar sem reyndum að fara aðeins yfir sóknarleikinn. Við erum að reyna að fá aðeins meiri breidd í sóknarleikinn og að stelpurnar noti betur völlinn en fari ekki of mikið inn á miðjuna. Við þurfum að geta teygt aðeins á Rússunum og þurfum líka að skjóta bæði undirskotum og skotum í skrefinu á þær því þær eru gríðarlega hávaxnar og sækja okkur ekki langt út," sagði Ágúst Jóhannsson eftir æfingu íslenska liðsins í gær.

Kvennalandsliðið mætir Rússlandi í kvöld í lokaleik sínum í riðlinum og jafnframt hreinum úrslitaleik um sæti í milliriðlinum. Ísland verður að vinna leikinn en Rússum nægir jafntefli.

„Við myndum brjóta blað í sögunni með því að vinna þær, bæði með því að vinna fyrsta sigurinn á EM og líka með því að komast upp úr riðlinum. Það er því mikið undir í þessum leik," sagði Ágúst.

„Rússarnir eru gríðarlega sterkir og þetta er frábært lið. Við þurfum að ná upp algjörum toppleik til þess að geta unnið þær," sagði Ágúst. Rússar hafa farið mikinn á lokakafla leikjanna en hvaða skýringu hefur Ágúst á því.

„Þær skipta gríðarlega mikið inn á og hann notar þrettán leikmenn í fyrri hálfleik í leiknum við Svartfjallaland í gær. Hann er að rúlla á liðinu sem er dæmigert fyrir Rússana. Þetta eru allt vel þjálfaðir leikmenn og atvinnumenn í greininni. Rússar eru maskína og þær halda alltaf áfram og vinna eftir sínu kerfi. Við teljum okkur eiga að ráða ágætlega við þær varnarlega en þær keyra mikið hraðaupphlaup, bæði fyrsta og ekki síður annað tempó. Stelpurnar þurfa að vera fljótar til baka og tilbúnar að mæta þeim þegar þær koma á okkur," sagði Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×