Viðskipti innlent

Keyptu fyrirtækjalánin með 1.600 milljarða afföllum

„Nýju bankarnir keyptu fyrirtækjalánin á að meðaltali um 40% af kröfuvirði við yfirfærslu frá gömlu bönkunum. Hlutfallið getur verið mismunandi milli bankanna þriggja. Afföllin voru því um 1.600 milljarðar kr. miðað við upphaflegan efnahagsreikning bankanna þriggja."

Þetta kemur fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ásbjarnar Óttarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi um afskriftir lána. Ásbjörn spurði m.a. um hve háa fjárhæð voru lán fyrirtækja afskrifuð við kaup nýju bankanna á þeim?

Í svari við spurningunni um hve háa fjárhæð húsnæðislán gömlu bankanna voru afskrifuð við kaup nýju bankanna á þeim kemur fram að það hafi verið um 90 milljarðar kr.

„Nýju bankarnir keyptu húsnæðislánin að meðaltali á 72% af kröfuvirði við yfirfærslu frá gömlu bönkunum. Hlutfallið getur verið mismunandi milli bankanna þriggja. Afföllin voru því samtals 90 milljarðar kr. miðað við upphaflegan efnahagsreikning nýju bankanna þriggja," segir í svarinu.

„Í umræðu um afskriftir húsnæðislána er vert að benda á að um þriðjungur húsnæðislána bankanna varð eftir í gömlu bönkunum við hrun bankakerfisins í október 2008. Tölur Seðlabankans um útlán bankakerfisins ná aðeins til starfandi fjármálastofnana. Húsnæðislán í eigu gömlu bankanna eru því ekki tekin með í þeim gögnum eftir þann tíma."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×