Körfubolti

Jóhann Þór: Kemur nýr leikmaður í fyrramálið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Þór Ólafsson þjálfar Grindavík.
Jóhann Þór Ólafsson þjálfar Grindavík. visir/bára
„Ég er í raun fúll með leikinn í heild sinni. Við vorum yfir hálfleik og það voru ljósir punktar. Við vorum mjúkir í fyrri hálfleik en við vorum mýkri en koddi úr Rúmfatalagernum í seinni hálfleik," sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur í samtali við Vísi eftir tapið gegn Keflavík í kvöld.

"Þeir lömdu okkur út úr þessu og við náum ekki að setja upp sóknarleik í seinni hálfleik og tökum trekk í trekk vondar ákvarðanir í seinni hálfleik,“ bætti Jóhann við.

Grindavík leiddi í leikhléi með fjórum stigum en Keflavík stiga upp varnarlega í síðari hálfleiknum og Grindvíkingar áttu lítið um svör.

„Þeir ná áhlaupi í seinni hálfleik og því fór sem fór. Þegar við ætluðum að fara að berja frá okkur þá vorum við flautaðir út úr þessu, fannst mér. Við settum ekki upp sókn í þriðja leikhluta því þeir ýttu okkur út úr öllu. Þegar við ætluðum að fara að svara fyrir okkur var tekið á því en ekki gert hinu megin, það er mín upplifun.“

„Ég ætla samt ekkert að kenna þessu um, þeir taka einhver 50 sóknarfráköst og þar af einhver 4-5 eftir víti. Heilt yfir var þetta slakt. Það er skammt stórra högga á milli og það er annar leikur strax á mánudag,“ bætti Jóhann við en þá mætir Grindavík KR í bikarnum.

Margir eru á því að Grindvíkingar geti stillt upp einu sterkasta byrjunarliði deildarinnar. Þeir nota bekkinn hins vegar lítið og Jóhann sagði að þeir þyrftu að stækka hann.

„Það kemur nýr leikmaður í fyrramálið og verður með á móti KR. Hann er af íslensku bergi brotinn en það verður bara að koma í ljós hver það er,“ sagði Jóhann sem vildi lítið segja meira.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.