KR gekk frá Snæfell í stórleik átjándu umferðar Dominos-deildar kvenna í kvöld en KR hafði betur, 90-54, í DHL-höllinni í kvöld.
KR-liðið byrjaði af miklum krafti og voru tíu stigum eftir fyrsta leikhlutann. Þær stigu enn frekar á bensíngjöfina í öðrum leikhlutanum og leiddu 44-23 í hálfleik.
Þá var björninn í raun unninn og formsatriði fyrir nýliðana að klára leikinn í síðari hálfleik gegn sterku liði Snæfells sem fann engan veginn taktinn í kvöld. Munurinn að endingu 36 stig.
Kiana Johnson var stórkostleg í liði KR. Hún skoraði 28 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar en KR er áfram í öðru sætinu, tveimur stigum á eftir toppliði Keflavíkur og tveimur stigum á undan Val sem er komið í þriðja sætið.
Kristen Denise McCarthy var einu sinni sem oftar stigahæst í liði Snæfells. Hún gerði átján stig, tók þrettán fráköst og gaf fimm stoðsendingar.
Snæfell er í fjórða sætinu með 22 stig og er í harðri baráttu um úrslitakeppnissæti en Stjarnan eltir þær og er tveimur stigum frá þeim eftir tap í Borgarnesi í kvöld.
Mesta spenna kvöldsins var í Hafnarfirði er topplið Keflavíkur vann nauman sigur á Haukum, 76-74, en mikil spenna var allt fram á lokasekúndur leiksins. Að lokum höfðu gestirnir betur.
Keflavík er áfram á toppnum með tveggja stiga forskot á nýliða KR en stigahæst í kvöld var Brittanny Dinkins en hún var var með myndarlega þrefalda tvennu; nítján stig, sautján fráköst og tíu stoðsendingar.
Haukar eru í sjöunda og næst neðsta sæti deildarinnar en Klaziena Guijt var stigahæst með tuttugu stig. LeLe Hardy bætti við átján stigum, átta fráköstum og sjö stoðsendingum.
Valur burstaði Breiðablik í Origo-höllinni í kvöld en lokatölur urðu 47 stiga sigur Valsstúlkna, 111-64, en þær gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik. Þriðja leikhlutann unnu þær 33-5.
Heather Butler var stigahæst í liði Vals með 32 stig auk þess sem hún tók átta fráköst. Dagbjört Dögg Karlsdóttir bætti við nítján stigum og Helena Sverrisdóttir átján en Valur er komið í þriðja sætið.
Breiðablik er á botninum með tvö stig en Ivory Crawford var stigahæst þeirra grænklæddu í kvöld. Hún gerði nítján stig og tók sex fráköst en Sanja Orazovic bætti við fjórtán stigum.

