Umfjöllun og viðtöl: HK - Aftur­elding 26-32 | Öruggt hjá Aftureldingu

Gabríel Sighvatsson skrifar
vísir/bára
HK tók á móti Aftureldingu í 11. umferð Olís-deildar karla í Kórnum í kvöld. Fyrirfram voru gestirnir taldir sigurstranglegir þar sem HK var á botni deildarinnar án stiga.

Leikurinn byrjaði rólega og var jafnræði með liðunum. Mosfellingar átti góðan kafla um miðbik fyrri hálfleiks þar sem þeir komu sér upp nokkurra marka forystu.

Þegar minna en mínúta var til stefnu í hálfleik gerðist Sveinn Jose Rivera sekur um klaufalegt brot á leikmanni HK og fékk að líta beint rautt spjald fyrir það. Hann var alls ekki sáttur við dóminn en honum varð ekki haggað.

HK-ingar komu tvíefldir til leiks í seinni hálfleik, nokkrum mörkum undir gerðu þeir sig líklega til að jafna leikinn með góðu áhlaupi.

Hinsvegar náðu þeir ekki að brjóta 3ja marka múrinn sem skildi liðin að undir lok leiksins. Leikmenn voru sjálfum sér verstir og fóru illa með urmul færa.

Að lokum var orkan á þrotum og Afturelding gekk á lagið og kláraði leikinn með nokkrum mörkum. 6 marka sigur Aftureldingar staðreynd.

Af hverju vann Afturelding?

Gestirnir voru betri aðilinn í leiknum, það fór ekki á milli mála. Hinsvegar hefðu HK-ingar getað gert mun betur í seinni hálfleik. Afturelding gerði það sem það þurfti og kláraði leikinn sannfærandi undir lokin.

Hvað gekk illa?

Þegar 3 mörkum munaði á liðunum þá náði HK liðið ekki í stoppið sem það þurfti. Tempóið í leiknum var hátt og þeir gátu ekki haldið áhlaupinu gangandi.

Þeir voru í stöðu til að minnka muninn niður í 2 mörk en klikkuðu á sendingum og skotum sem þeim var refsað fyrir.

Hverjir stóðu upp úr?

Jóhann Birgir og Pétur Árni skoruðu 6 mörk hvor fyrir heimamenn en vert er að minnast að skotnýting Jóhanns var mjög léleg, aðeins 50%.

Guðmundur Árni skoraði 8 mörk fyrir Aftureldingu og Þorsteinn Gauti setti 7. Björgvin Franz kom inn á í seinni hálfleik og varði 10 bolta. Þá var Davíð Svansson góður í marki HK og hélt þeim lengi inni í leiknum með 15 vörslum.

Hvað gerist næst?

Deildin er hálfnuð. Afturelding náði að minnka bilið á milli þeirra og Hauka sem sitja á toppnum í 2 stig eftir jafntefli Hafnfirðinga gegn ÍR á sama tíma í kvöld. Næsti leikur Aftureldingar er gegn KA á Akureyri.

HK-ingar eru ennþá í leit að sínum fyrstu stigum en ólíklegt verður að teljast að þau komi í næstu umferð þar sem þeir taka á móti toppliði Hauka.

Elías Már: Við erum í ákveðnu verkefni

„Mér fannst leikurinn að mörgu leyti mjög góður.“ var það fyrsta sem Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, sagði í viðtali eftir leik. Hann var þó augljóslega svekktur með niðurstöðuna þar sem hans menn fengu ótal færi til að koma til baka í lok leiks.

„Við fengum endalausa sénsa til að minnka þetta niður í 2 mörk og nóg eftir. Því miður þá klikkum við alltof mikið úr hornunum, við klikkum á vítakasti, hraðaupphlaupi, gerum okkur seka um hrikalega barnaleg mistök.“

„6 marka tap gefur ekki rétta mynd af leiknum. Mér fannst við eiga séns þegar það voru 10 mínútur eftir og við reyndum allt, fórum í 3-2-1, 7 á 6 en það fellur ekkert með okkur.“

„Þá kemur alltaf þetta reynsluleysi að menn reyna einhverja 50-50 sendingu, við klikkum á dauðafærum eða hvað það er. Þetta er sagan okkar í vetur, við erum búnir að vera í séns í langflestum leikjunum, það eru búnir að koma ótrúlega fáir hauskúpuleikir hjá okkur. Því miður þegar við eigum sénsinn, þá kemur alltaf einhver þvæla og við fáum allt tvöfalt í hausinn.“ sagði Elías Már sem og viðurkenndi að þeir væru sjálfum sér verstir.

„Ég er sammála því. Við náum ekki að vinna leik ef við erum að klikka svona mikið á einföldum atriðum.“

Hinsvegar var margt gott í leik HK og það er ekki hægt að einblína á neikvæðu hlutina í leiknum.

„Ég er ógeðslega svekktur en ég er líka alveg stoltur af strákunum. Við erum að reyna og þetta er bara erfitt, það fellur ekkert með okkur, það eru 6 eða 7 strákar alveg frá eða tæpir. Lið eins og HK að koma úr Grill deildinni má ekkert við því. Það eru allir að reyna og það verður enginn sakaður um annað.“

Tvö vafasöm atvik komu upp í leiknum. Það fyrra gerðist undir lok fyrri hálfleiks þegar Sveinn Jose Rivera, leikmaður Aftureldingar, var rekinn af velli með beint rautt spjald og það seinna þegar Kristján Ottó Hjálmsson, leikmaður HK, hefði mögulega átt að fá að líta rautt spjald en fékk einungis 2 mínútur.

„Ég sá eiginlega ekkert hvað gerðist en eðlilega gargaði ég rautt spjald af því ég vildi fá sem flesta leikmenn Aftureldingar út úr þessu til að eiga möguleika. Þetta var ekkert hræðilegt brot, þetta er bara klaufalegt, hann hleypur utan í hann í hraðaupphlaupi og dómararnir mátu að þetta væri rautt og þeir hljóta að hafa rétt fyrir sér.“

„Jú, ég held það. Ég hefði allavegana ekki sagt neitt ef það hefði komið rautt spjald, hann fer bara með beina hendi beint framan í hann. Það er búið að gerast of oft hjá Kristjáni að hann er að rjúka út með hendurnar á vitlausum stöðum og slá menn í andlitið. Menn þurfa að fara að læra þetta.“

Elías Már er alveg meðvitaður um stöðuna sem liðið er í þegar deildin er hálfnuð.

„Á meðan við erum það beinir í baki þá er þetta möguleiki. Við erum bara í ákveðnu verkefni, við erum ekkert endilega að horfa á það hvort við föllum eða ekki. Við erum með mjög ungt lið, við erum bara að reyna að bæta okkar stráka. Kannski er það bara eitt af þroskaskrefum HK að falla og koma svo tvíefldir upp eftir eitt ár. Ef það er það þá tökum við það, við erum ekkert hræddir að segja það. Ef við náum að bjarga okkur þá er það frábært og við eigum fullt af leikjum eftir og fullt af leikmönnum inni, við verðum að vera brattir og halda áfram.“

Einar Andri: Það er aldrei nein skylda

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var sáttur með sigurinn í kvöld.

„Ég er gríðarlega ánægður, mér fannst við spila mjög vel allan tímann.“

„HK er með hörkulið og héldu í við okkur, þeir voru aldrei langt undan, þetta var erfiður leikur. Ég er líka gríðarlega ánægður með ungu strákana sem komu inn í liðið. Björgvin í markið í seinni hálfleik var stórkostlegur og Agnar Ingi að spila sínar fyrstu alvöru mínútur. Þorsteinn kemur líka inn á og hjálpar okkur og ég er virkilega ánægður með það.“

Fyrirfram var Afturelding sigurstranglegra liðið en Einar vildi ekki tala um þetta sem skyldusigur.

„Það er aldrei nein skylda, það þarf að hafa fyrir öllum sigrum og það eru einhverjir aðrir sem sjá um að skilgreina hvað leikir eiga að heita og vera. Þetta var bara hörkuleikur og við vinnum hann.“

HK-ingar héldu í við þá nánast allan leikinn og voru nálægt því að komast aftur inn í hann en Afturelding náði að loka leiknum undir lokin.

„Við hleyptum þeim ekkert nær en 3 mörk og mér fannst við hafa þokkalega góð tök á leiknum. Þær eru hættulegir og voru aldrei langt undan og þess vegna var frábært að klára þetta svona. Við eigum sigurinn skilið.“

Einar Andri vildi lítið tjá sig um rauða spjaldið sem Sveinn Jose Rivera fékk fyrir brot rétt fyrir hálfleik, né atvikið þar sem Kristján Ottó sló í andlit Þorsteins Gauta.

„Ég sá það ekki nógu vel, ég treysti að dómararnir hafi haft rétt fyrir sér. Við unnum bara vel úr því, Þorsteinn kom inn í staðinn í seinni hálfleik, ungur strákur og nýtti tækifærið vel.“

„Ég þarf að sjá það betur. Dómararnir mátu þetta bara sem tvær mínútur.“

Einar Andri er mjög ánægður með gang mála í deildinni en segir að hans menn þurfi að halda fókus.

„Ég er ánægður, við erum að spila vel og þurfum bara að halda áfram. Við eigum þrjá leiki eftir fyrir jól og við þurfum að vera klárir í það.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira