Erlent

Draga stór­lega úr leyfi­legum fjölda flótta­manna í landinu

Gunnar Reynir Valþórsson og Atli Ísleifsson skrifa
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna (t.h.) og Donald Trump Bandaríkjaforseti (t.v.).
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna (t.h.) og Donald Trump Bandaríkjaforseti (t.v.). Getty
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að draga stórlega úr leyfilegum fjölda flóttamanna í landinu á hverjum tíma.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að átján þúsund manns verði veitt hælisvist á næstu tólf mánuðum í landinu og er það um helmingi minna en leyfilegur fjöldi var í fyrra. Þetta kemur fram í frétt Guardian.

Írökum sem aðstoðað hafa Bandaríkjaher í Írak er tryggt pláss auk þess sem umsækjendur úr minnihlutahópum sem hafa sætt ofsóknum er líka gefinn kostur á að sækja um hæli.

Mannréttindasamtök gagnrýna ákvörðunina harðlega og það gerir einnig Samantha Power, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sem segir breytinguna skelfilega.

Fækkað reglulega

Frá árinu 2017 hefur Donald Trump forseti reglulega fækkað í hópnum sem hleypt er inn á hverju ári og hefur fjöldinn nú dregist saman um áttatíu prósent frá því sem var þegar Barack Obama gegndi embætti forseta landsins.

Þá hefur Trump forseti einnig skrifað undir reglugerð sem heimilar stjórnvöldum í einstaka ríkum að taka ekki þátt í flóttamannaaðstoð, kjósi þau svo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×