Umfjöllun og viðtöl: KA - Haukar 23-26 | Haukar þurftu að hafa mikið fyrir tveimur stigum á Akureyri

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jón Heiðar Sigurðsson, leikstjórnandi KA.
Jón Heiðar Sigurðsson, leikstjórnandi KA. vísir/bára
Haukar þurftu að hafa talsvert mikið fyrir stigunum tveimur sem fylgja þeim suður yfir heiðar eftir leik liðsins gegn KA á Akureyri í Olís-deild karla í kvöld. Lokatölur urðu 23-26 þar sem liðin skiptust á forystunni lengst af leik.

Hafnfirðingarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti. Eftir átta mínútna leik var staðan 1-6, ekki útlit fyrir neitt annað en léttan leik fyrir gestina.

Þegar fyrri hálfleikurinn var rétt rúmlega hálfnaður var eins og KA-menn áttuðu sig á því að þeir væru að spila handboltaleik. Skyndilega small vörnin, markvarslan fylgdi og heimamenn unnu sig inn í leikinn þannig að staðan var 11-11 í hálfleik.

Leikurinn var í járnum í síðari hálfleik og ef eitthvað er voru KA-menn ívið sterkari til að byrja með, þannig var staðan 19-17 fyrir heimamenn þegar korter var eftir.

Þá kom reynslan í Haukunum sér vel. Með Vigni Svavarsson fremstan í flokki náðu Haukar að salla inn mörkum á meðan sóknirnar urðu þyngri fyrir KA-menn, sem létu það fara mjög í taugarnar á sér hversu mikið lengdist í sóknum Haukamanna undir lok leiksins. Lokatölur 23-26 og Haukamenn því með fullt hús eftir tvö leiki, KA hinsvegar með núll.

Af hverju unnu Haukar?

Leikurinn var sem fyrr segir í járnum og þegar uppi er staðið var það líklega reynslan og dýptin hjá Haukamönnum sem sigldi sigrinum heim. 

Það var ekki mikið sem skildi liðin að þegar uppi er staðið en Haukamenn sýndu af sér meiri yfirvegun undir lokin á meðan KA-menn fóru örlítið á taugum. Vignir og Atli Már Báruson báru af hjá Haukum, sérstaklega undir lokin og drógu vagninn og stigin tvö heim.

Hverjir stóðu upp úr? 

Jovan Kukobat var ástæðan fyrir því að KA-menn komust inn í leikinn aftur. Með dyggri aðstoð frá vörninni lokaði hann markinu undir lok fyrri hálfleiks. Illviðráðanlegur í þessu formi og með örlítilli meiri markvörslu í síðari hálfleik hefði KA líklega uppskorið eitthvað úr leiknum.

Í sókninni hjá KA var Áki Egilsnes einnig drjúgur auk þess sem að minnast verður á innkomu Daníels Arnar Griffin sem kom inn í hægra hornið hjá KA í fyrri hálfleik. Hann var mjög drjúgur í vörninni og nýtti færin vel í sókninni.

Hjá Haukum var Grétar Ari Guðjónsson með stórskyttuna Tarik Kasumovic í vasanum auk þess að Vignir nýtti alla sína reynslu í leiknum. Vörn KA réði illa við hann á ögurstundu og opnaðist þar með töluvert pláss fyrir Atla Má, sem átti einnig góðan leik. 

Hvað gekk illa?

Raunar var það fátt sem gekk illa hjá liðunum tveimur. Varnarleikur beggja liða var glimrandi á köflum og því var sóknarleikurinn ef til vill ekki upp á sitt besta hjá báðum liðum, líkt og markatalan segir til um. 

Hvað er framundan? 

KA-menn mæta Fjölni í Grafarvogi þann 22. september. Sama daga taka Haukar á móti Stjörnunni.

Tarik Kasumovic var næstmarkahæstur í Olís-deildinni á síðasta tímabili með 137 mörk.vísir/bára

Stefán: Svekktir að vera ekki með eitt eða tvo stig

Stefán Árnason, þjálfari KA, var svekktur með að hafa ekki náð að landa að minnsta kosti einu stigi í kvöld. Liðið byrjaði leikinn afar illa sem kostaði mikla orku í að komast inn í leikinn ný.

„Við komum mjög illa inn í leikinn og vorum ótrúlega seinir í gang. Við gáfum Haukunum mjög auðvelt mörk í byrjun. Við leystum það sem þeir gerðu mjög illa. Það hefur þau áhrif að við vorum allt of lengi að jafna leikinn,“ segir Stefán.

Heimamenn náðu þó að rífa sig í gang og staðan var jöfn í hálfleik. Þannig hélst staðan út leikinn en Haukar sigldu fram úr á lokametrunum.

„Ég held að það sé korter eftir þegar staðan er 19-17 fyrir okkur. Þeir komast þá á 6-1 siglingu og þeir voru bara klókari síðustu fimmtán mínúturnar. Þeir fundu betri lausnir, fengu auðveldari mörk heldur en við,“ sagði Stefán.

Hann telur að það sé ekki mikið sem hafi skilið liðin að í kvöld.

„Aðeins meiri einstaklingsgæði, að leikmenn myndu finna betri lausnir, þá hefðum við náð að halda þessu forskoti og klára þennan leik. Það var rosalega mikið með okkur um miðjum seinni hálfleik,“ sagði Stefán sem bætti við að Haukar væru með meiri breidd en KA og það hafi sést í kvöld.

„Haukarnir eru með frábært lið, mikla breidd og það kannski sást í lokin. Það voru einhverjir sem áttu ekki sinn besta dag og þá kom bara næsti inn,“ sagði Stefán.

KA-menn eru án stiga eftir tvo leiki en í báðum leikjunum voru þeir þó ekki langt í frá að ná í að minnsta kosti eitt stig.

„Við erum að koma vel inn í þetta. Við erum bara svekktir að vera ekki með eitt eða tvo stig. Þetta sýnir okkur að það er ýmislegt sem býr í liðinu okkar. Við erum nálægt því en það eru að koma kaflar í báðum leikjum sem eru ekki alveg nógu góður. Ef við náum að lengja góðu kaflana og stytta slæmu kaflana þá er ekkert langt í það að förum að vinna þessi lið.“ 

Gunnar er á sínu fimmta tímabili sem þjálfari Hauka.vísir/bára

Gunnar: Lykillinn að stoppa Tarek

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var kampakátur í leikslok eftir sigurinn gegn KA. Liðið kom afskaplega vel stemmt inn í leikinn í kvöld.

„Þetta var frábær byrjun. Ég er ánægður með hvernig við mættum inn í þetta,“ sagði Gunnar. Haukamenn hleyptu þó KA-mönnum inn í leikinn auk þess sem að Darri Aronsson fór meiddur út af í fyrri hálfleik.

„Ég er stoltur af strákunum og hvernig þeir höndla mótlætið. Við missum Darra, við lendum tveimur undir. Fullt af augnablikum sem við erum óánægðir með en við svona héldum haus og sýndum karakter í lokin,“ sagði Gunnar.

En hvað skildi liðin að þegar uppi var staðið?

„Þetta eru síðustu sjö mínúturnar þá erum við sterkari. Við settum stóru skotin og fengum mörkin þegar við þurftum á þeim að halda. Náðum aðeins að loka í vörninni líka,“ sagði Gunnar.

Hann segir að lykillinn að sigrinum hafi verið að stoppa Tarek Kasumovic sem átti dapran dag, skoraði aðeins eitt mark í sjö tilraunum.

„Við fórum langt út í hann og náðum að halda honum niðri. Það er kannski lykillinn og þegar hann fór út af þá gátum við verið þéttari á móti hinum. Það þarf engan sérfræðing til að vita að Tarek og Áki (Egilsnes) eru bestir í þessu liði. Það mæðir mikið á þeim og þú þarft að stoppa þá til að vinna,“ sagði Gunnar sem var afar ánægður að fara með með stigin tvö úr KA-heimilinu.

„Ég er hrikalega ánægður að koma hingað norður í KA-heimilið og sækja tvo stig. Þetta er einn erfiðasti útivöllur landsins. “

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira