Makamál

Sönn íslensk makamál: Tekin!

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Sönn íslensk saga úr stefnumótalífinu í Reykjavík.
Sönn íslensk saga úr stefnumótalífinu í Reykjavík.
Það er fátt eins skemmtilegt eins og góðar sannar sögur. Ástarsögur, stefnumótasögur eða bara vandræðalegar kynlífssögur.

Makamál birta fyrstu aðsendu söguna úr næturlífinu í Reykjavík. Sendandinn er rúmlega þrítug kona sem óskar þess að halda nafnleynd.

Ég sá hann á Hverfisbarnum sumarið 2017. Hann stóð við barinn, hávaxinn, þrekinn og myndarlegur. Hann var í dökkblárri Fred Perry peysu og með víkingalegt yfirbragð.

Fyrr um kvöldið var ég með vinkonum mínum úti að borða á Snaps, ég var sú eina sem var á lausu. Allt kvöldið grínuðumst við með það að sama hvað, þá færi ég ekki ein heim. Ég myndi finna draumaprinsinn í kvöld. 

Mér leið vel þetta kvöld, ég var örugg með sjálfa mig og fann á mér að það myndi eitthvað ævintýralegt gerast. Við fundum sæti út í horni á Hverfisbarnum. Ég var búin að missa sjónar á víkingaprinsinum í Fred Perry peysunni, hann var ábyggilega farinn.

Við settumst við hliðina á kunningjum okkar og sameinuðum borðin. Allt í einu er pikkað í öxlina á mér, það var hann. Hann hefur séð mig líka, hugsaði ég. Svo segir hann með mjög djúpri og rámri röddu. Með mjög sexý röddu:

Hæ, heyrðu fyrirgefðu þú ert eiginlega í sætinu mínu, má ég kannski setjast við hliðina á þér?

Hann var ekki bara hávaxinn, myndarlegur og með sexý rödd, hann var líka kurteis. 

Fljótt kom í ljós að hann var vinur kunningja okkar, vá hvað ég var spennt. Við byrjuðum að tala saman, ég og víkingaprinsinn með rámu röddina. Hann var greinilega hrókur alls fagnaðar og það var ekki erfitt að falla fyrir sjarmanum hans. 

Eftir nokkra drykki stöndum við upp og allir byrja að dansa. Það var deginum ljósara að við vorum bæði mjög spennt. Við döðruðum, dönsuðum og svo dró hann mig til sín.

„Hvar hefur þú eiginlega verið?“ 

Vá, mér leið alveg eins. Afhverju hafði ég aldrei séð hann? Við dönsuðum meira og fórum svo út að spjalla. Allt í einu vorum við byrjuð að leiðast.

Allur hópurinn rölti svo saman á Kaffibarinn. Þegar við komum þangað inn þá snéri hann sér að mér og sagði:

Ég ætla ekki að týna þér hér, skilur þú það? Við héldum áfram að leiðast inni á Kaffibarnum og svo þegar við fórum út í portið  þá kyssti hann mig. Hann var greinilega smá feiminn en virkaði svo heillaður að mér. Ég fann að ég var líka heilluð. 

Við ákváðum svo að stinga af. Fórum út og létum engan vita. Við löbbuðum um bæinn og leiddumst, vissum ekkert hvert við vorum að fara. Bara hlógum og kysstumst til skiptist. Ég hugsaði með mér að þetta væri eitthvað sérstakt. Mér leið smá eins og þetta væri einhver sena í bíómynd. Við fórum á Arnarhól og hann hélt á mér og faðmaði mig til skiptist. Ég hló að öllu sem hann sagði, ég var eins og ástfangin unglingsstelpa.

Svo stingur hann upp á því að við förum heim til hans. Ég var aðeins hikandi en svo ákvað ég að láta til leiðast.Þegar við komum inn til hans var eins og hellt hafi verið úr risa bala fullum af ástríðu og losta. Það leið ekki á löngu þangað til við vorum orðin lárétt og nakin í rúminu hans.

Eftir hita, svita og bingo í sal þá lágum við í faðmlögum. Hann hélt mér þétt að sér og mér leið vel. Klukkan var rétt um tvö og allt í einu fannst mér ekki eins og ég gæti gist nóttina. Ég var nýhætt í öðru sambandi og fannst eitthvað réttara að vakna heima hjá mér. Ég stóð upp og byrjaði að klæða mig í fötin, samt brosandi og ennþá í sæluvímu. Ég sá að hann varð smá svekktur að ég væri að fara. Mér fannst það krúttlegt, hann var greinilega spenntur fyrir mér. Ég hlakkaði til að heyra í honum strax daginn eftir. 

Allt í einu ríkur hann á fætur og byrjar að klæða sig. Ég man að ég hugsaði með mér hvað hann væri greinilega mikill herramaður, hann ætlaði að fylgja mér út. Svo tók hann upp símann sinn.

„Hæ, Stebbi? 

Eru þið ennþá á Kaffibarnum?

Ok, komin á Paloma?

....

Frábært, ég verð kominn eftir tíu mín!

Hún er að fara heim.“ 

Hann skellti á og sneri sér að mér brosandi.

„Fæ ég ekki að fljóta með þér í leigubíl? Klukkan er svo lítið, ég ætla aftur í bæinn!“

Ég strunsaði út, rauk hratt á leið heim til mín og var ennþá að átta mig á því hvað hefði gerst. Vá hvað mér leið mikið eins og asna. Ég var greinilega aðeins að misskilja leikinn. 

Þetta var eins og atriði úr nýrri seríu af TEKIN með Audda Blö!Makamál taka fagnandi á móti aðsendum sögum um ástina, stefnumót og kynlíf. 


Hægt er að senda sögur á makamal@syn.is.


Tengdar fréttir

Tantranudd: Ekki kynlífsþjónusta heldur munúðarfull upplifun

"Tantranudd er alls ekki kynlífsþjónusta“ segir Magdalena Hansen stofnandi Tantra Temple á Íslandi. Hún segir jafnframt að þeim berist oft spurningar frá fólki sem er að leita eftir einhvers konar kynlífsþjónustu en þær berist þó aðallega frá karlmönnum.

Íslenskt par segir frá örvandi upplifun sinni af tantranuddi

Í gær birtu Makamál viðtal við Magdalenu Hansen eiganda Tantra Temple á Íslandi. Í framhaldi af viðtalinu bauðst Makamálum að finna par til þess að prófa nuddið og taka svo viðtal við þau á eftir um upplifun þeirra.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.