Körfubolti

Körfuboltakona í tíu leikja bann eftir að hafa verið handtekin fyrir heimilisofbeldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Riquna Williams.
Riquna Williams. Getty/Leon Bennett
Riquna Williams fékk nýjan samning nokkrum vikum eftir að hún var handtekin fyrir að ráðast inn á heimili fyrrum kærustu með byssu. Nú rúmum tveimur mánuðum seinna þarf hún fyrst að glíma við einhverjar afleiðingar inn á körfuboltavellinum.

Riquna Williams er leikmaður hjá WNBA-liðinu Los Angeles Sparks og hefur spilað með liðinu undanfarin þrjú tímabil.

WNBA dæmdi hana í gær í tíu leikja bann fyrir hegðun sína utan vallar. Riquna Williams var ákærð fyrir innbrot og líkamsárás en hún réðst á konu og hótaði síðan öllum íbúum hússins með byssu í hönd.





Forráðamenn WNBA deildarinnar sátu aðgerðalausir í tvo mánuði þrátt fyrir að leikmaður í deildinni þeirri hefði verið handtekin fyrir heimilisofbeldi en Riquna Williams hafði þarna brotist inn á heimili fyrrum kærustu sinnar.

Það var ekki fyrr en bandarískir fjölmiðlar fóru að pressa á aðgerðir enda þetta mál orðið dæmi um áberandi mun á því hvernig væri tekið á konum miðað við karla gerist atvinnuíþróttamenn sekir um heimilisofbeldi.

Hin 29 ára gamla Riquna Williams hefur lýst sig saklausa en hún kemur ekki fyrir dómara fyrr en 16. ágúst næstkomandi.

WNBA segist hafa nú lokið sinni eigin rannsókn á málinu en þar var rætt við Williams sjálfa og nokkur vitni en þetta kemur fram í yfirlýsingu frá WNBA deildinni sem finna má hér fyrir neðan.





Samkvæmt skýrslu lögreglu þá átti atburðinn sér stað á heimili fyrrum kærustu hennar í Palm Beach County á Flórída í desember. Williams sló gömlu kærustuna í höfuðið og dróg hana á hárinu. Maður og tíu ára sonur konunnar voru á heimilinu og reyndu að skilja á milli þeirra. Eftir það þá fór Williams út í bíl og kom til baka með byssu.

„Þið fáið öll átján,“ öskraði Riquna Williams og vísaði þar í skotin átján sem voru í byssunni. Hún keyrði svo í burtu.

Riquna Williams hefur spilað með Los Angeles Sparks liðinu á tímabilinu og er með 11,5 stig að meðaltali á 25,4 mínútum.

Lengsta bann sem WNBA-leikmaður hefur fengið var Rhonda Mapp árið 2003 en hún fékk tveggja ára bann fyrir notkun eiturlyfja. Brittney Griner og Glory Johnson voru nýgiftar þegar þær slógust og fengu báðar sjö leikja bann.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×