Körfubolti

Ægir og félagar komnir áfram í úrslitakeppninni eftir mikinn spennuleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson.
Ægir Þór Steinarsson. Vísir/Bára

Íslendingaliðið Regatas Corrientes tryggði sér í nótt sæti í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar í körfubolta í Argentínu eftir sigur í fjórða leiknum á móti San Martín.

Ægir Þór Steinarsson er þarna í sinni annarri úrslitakeppni á þessu tímabili en hann spilaði eins og kunnugt er með Stjörnuliðinu í Domino´s deildinni í vetur áður en hann fór út til Argentínu.

Regatas Corrientes vann leikinn 128-124 eftir tvíframlengdan leik og einvígið þar með 3-1.Ægir kom inn af bekknum og var með 5 stig, 4 stoðsendingar og 1 frákast á 21 mínútu. Íslenski leikstjórnandinn gaf flestar stoðsendingar í sínu liði ásamt Argentínumanninum Marco Giordano.

Regatas liðið tapaði fyrsta leik en vann síðan næstu þrjá. Ægir átti sinn besta leik í einvíginu í leik tvö þegar Regatas jafnaði metin. Hann var þá með 13 stig og 6 stoðsendingar.

Í þessum fjórum leikjum í sextán liða úrslitunum var Ægir samtals með 33 stig og 16 stoðsendingar eða 8,3 stig og 4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann hitti úr 5 af 9 þriggja stiga skotum sínum í einvíginu eða 56 prósent skotanna.

Það sem meira er að Ægir tapaði aðeins samtals 4 boltum á þeim 86 mínútum sem hann spilaði í einvíginu á móti San Martín.

Regatas Corrientes mætir Instituto í átta liða úrslitunum en það er gríðarlega sterkt lið sem endaði í öðru sæti í deildarkeppninni. Regatas endaði þar í sjöunda sæti.

Hér fyrir neðan má sjá Ægi hlusta á liðsfélaga sína syngja á leiðinni í leikinn.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.