Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Selfoss 22-27 | Sölvi lokaði markinu og Selfoss tók heimaleikjaréttinn

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/vilhelm
Það voru gestirnir frá Selfossi sem voru sterkari aðilinn í fyrsta leik Hauka og Selfoss í úrslitum Olís deildar karla en fyrsti leikurinn fór fram í kvöld. Eftir nokkuð jafnan leik náðu gestirnir yfirhöndinni og kláruðu leikinn með góðum sigri, 22-27.

 

Haukar byrjuðu leikinn þó betur og komust 5-3 eftir 6 mínútna leik en þá settu gestirnir í gang! Þeir skoruðu 10 mörk á móti 4 frá heimamönnum og breyttu stöðunni í 13-9 og þá fékk Gunnar Magnússon þjálfari Hauka nóg og tók leikhlé.

 

Það skilaði smá árangri en Haukar gátu minnkað muninn í 2 mörk fyrir lok hálfleiksins en Sölvi Ólafsson maður leiksins varði þá víti frá Daníel Þór Ingasyni! Staðan í hálfleik, 12-15 gestina í vil.

 

Haukar voru mikið ákveðnari í byrjun seinni hálfleiks og ætluðu sér að ná yfirhöndinni. Þeir jöfnuðu metin í 17-17 og þá fékk Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss nóg og tók leikhlé. 

 

Það skilaði nú ekki tilsettum árangri og Haukar komust yfir á 50.mínútu í fyrsta sinn síðan í stöðunni 5-3. En þá hrundi leikur þeirra og Selfoss keyrði yfir þá seinustu 10 mínútur leiksins.

 

Selfoss breytti stöðunni úr 20-19 í 20-23 á 4 mínútum og þá forystu létu þeir ekki af hendi. Þeir unnu að lokum sanngjarnan sigur, 22-27 og eru því komnir í 1-0 í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn!

 

Af hverju vann Selfoss?

 

Þeir voru betri þegar á reyndi. Sölvi Ólafsson var magnaður í markinu og spilaði líklega sinn besta leik á ferlinum og það var ekki að sjá að þeir væru á útivelli þar sem stuðningurinn gestamegin var magnaður.

 

Hverjir stóðu upp úr?

 

Hjá gestunum var Sölvi Ólafsson án nokkurs vafa maður leiksins! Hann varði 26 skot þar af 3 víti og endaði með yfir 50% markvörslu! Markahæstur gestanna var Elvar Örn Jónsson en hann skoraði 6 mörk og þó nokkur mjög mikilvæg.

 

Hjá heimamönnum var Grétar Ari ágætur í markinu en hann varði 15 bolta og var rétt undir 40%. Daníel Þór Ingason dró vagninn í sókninni með 8 mörk og Atli Már Báruson kom sterkur inn af bekknum og skilaði 5 mörkum.

 

Hvað gekk illa?

 

Sóknarleikur Hauka var alls ekki nógu góður í kvöld. Þeir voru mikið að taka ótímabær skot og þegar þeir fengu dauaðfæri voru þeir ekki að nýta þau nógu vel. Adam Haukur Baumruk vill væntanlega gleyma þessum leik en hann skoraði aðeins 1 mark úr 7 skotum.

 

Hvað gerist næst?

 

Liðin mætast aftur næstkomandi föstudag í Hleðsluhöllinni á Selfossi. Þar geta Selfoss komið sér í lykilstöðu með sigri.

 

Gunni Magg: Þurfum fyrst og fremst að skora meira en 22 mörk

Gunnar Magnússon þjálfari Hauka var svekktur með tap sinna manna og sagði að sóknarleikurinn hafi ekki verið nógu góður í kvöld.

 

„Við skorum 22 mörk í dag og það svona gerir gæfumuninn í dag. Fáum á okkur 27 mörk og varnarlega er ég nokkuð sáttur en við skorum ekki nóg og ég verð að hrósa Sölva, hann var frábær fyrir þá.”

 

Haukar náðu þó yfirhöndinni um miðbik seinni hálfleiks en síðan fóru þeir að hiksta. Gunni sagði að það hefði verið vegna slæmrar færanýtingar.

 

„Það var bara það sama sem gerðist þá. Mjög oft í færum voru við ekki að klára nógu vel og við þurfum að gera betur þar. Þegar við vorum komnir inn í leikinn þá vorum við að klikka á dauðafærunum og það var það sem munaði í kvöld.”

 

Gunni sagði að lokum að þeir þyrftu að laga margt fyrir næsta leik en þó aðallega sóknarleikinn.

 

„Við þurfum að safna kröftum og vera klárir í Selfoss en fyrst og fremst þurfum við að skora meira en 22 mörk. Það segir sig sjálft,” sagði Gunnar Magnússon að lokum.

 



Patti: Frábær kraftur frá okkar fólki í stúkunni

Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss var mjög ánægður með sigur sinna manna á Haukum í fyrsta leik liðanna í úrslitum Olís deildar karla. Hann sagði varnarleikinn hafa gert útslagið í kvöld.

 

„Það var varnarleikurinn, fyrst og fremst. Sölvi var stórkostlegur og Sverrir mjög flottur. Það var planað að setja hann inn eftir smá tíma en við vildum ekki gera það útaf hraðaupphlaupunum. Svo þessi kraftur frá fólkinu hérna, við lentum í vandræðum en leysum það mjög vel.”

 

Hann var mjög ánægður með varnarleikinn og Sölva í markinu en hann varði yfir 50% skotanna sem hann fékk á sig.

 

„Haukar skora bara 22 mörk sem er frábært fyrir okkur. Stór þáttur í því er sterk vörn og Sölvi sem var geggjaður sem er frábært að sjá.”

 

Gestirnir hreinlega áttu stúkuna í kvöld en það var fjölmennt frá Selfossi og lætin voru mikil í gestastúkunni. Patti var gríðarlega ánægður með sitt fólk.

 

„Já ég er mjög ánægður en þetta er búið að vera svona í allan vetur og þessi ár sem ég hef verið hérna. Þetta er stórkostlegt fólk og menn mega brosa núna en Haukarnir eru hrikalega sterkir og þetta er bara rétt að byrja.”

 

Patti var spurður að lokum hvort hann væri ekki ánægður að skila sigri með stóra bróður sinn, Guðna Th. Jóhannesson Forseta Íslands í stúkunni í kvöld.

 

„Jújú það er alltaf gaman að hafa hann í stúkunni, ég er bara ánægður að hafa hitt hann og þarf að fara gera það oftar og það er jákvætt að hann hafi séð þennan flotta leik, sagði Patrekur að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira