Innlent

Fyrsti þristurinn í hópfluginu á leið til Reykjavíkur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugvélarnar eru á leiðinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að minnast 75 ára afmælis innrásarinnar í Normandí.
Flugvélarnar eru á leiðinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að minnast 75 ára afmælis innrásarinnar í Normandí. Ddaysquadron/Tom Demerly

Fyrsti þristurinn í miklu hópflugi gamalla stríðsvéla yfir Atlantshafið er á leiðinni til Íslands frá Grænlandi. Lending á Reykjavíkurflugvelli er áætluð um klukkan 18.15, samkvæmt upplýsingum frá flugþjónustunni ACE FBO, sem annast afgreiðslu vélanna hérlendis.

Vélarnar eru af gerðinni Douglas Dakota C-47, eins og hernaðarútgáfan var kölluð, og DC-3, en svo nefndist borgaralega útgáfan. Þær eru á leiðinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að taka þátt í athöfnum til að minnast þess að þann 6. júní næstkomandi verða 75 ár liðin frá D-deginum árið 1944, sem markaði upphaf innrásarinnar í Normandí í Frakklandi.

Þristurinn sem væntanlegur er í kvöld kallast Clipper Tabitha May. Mynd/Ddaysquadron

Síðdegis á morgun eru ellefu vélar væntanlegar saman til Reykjavíkur og verður það stærsta hópflugið. Það ræðst þó af veðurspá hvort sú tímasetning stenst. Vélin sem væntanleg er í kvöld kallast Clipper Tabitha May en óvíst er hver endanlegur fjöldi verður. 

Flugflotanum verður lagt norðan við Loftleiðahótelið. Stefnt er að því að almenningi verði gefinn kostur á að skoða flugvélarnar á þriðjudag en áformað er að þær fljúgi áfram til Skotlands á miðvikudag.

Vonast er til að hægt verði að fljúga íslenska þristinum Páli Sveinssyni frá Akureyri til Reykjavíkur á morgun til heiðurs flugflotanum. Það er þó háð því að flugvirkjum takist í tæka tíð að lagfæra olíuleka á öðrum hreyflinum, að sögn Tómasar Dags Helgasonar, formanns Þristavinafélagsins. 

Hér má fylgjast með flugi Clipper Tabitha May, en hún hefur skrásetningarstafina N33611. Lesa má um leiðangurinn á heimasíðu D-Day Squadron.


Tengdar fréttir

Þrír þristar saman á Reykjavíkurflugvelli

Sjaldséður viðburður verður á Reykjavíkurflugvelli um sjöleytið í kvöld þegar tveir þristar á áttræðisaldri, forngripir af gerðinni Douglas DC-3, fara í samsíða flug.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.