Viðskipti erlent

Ætla ekki að verða við áskorun óánægðra viðskiptavina sem þola ekki papparörin

Birgir Olgeirsson skrifar
McDonald´s rekur rúma 1.360 veitingastaði í Bretlandi.
McDonald´s rekur rúma 1.360 veitingastaði í Bretlandi. Vísir/Getty
Fjöldi Breta hefur kallað eftir því að skyndibitakeðjan McDonald´s losi sig við papparör sem viðskiptavinir halda fram að leysist upp í drykkjum þeirra.

Greint er frá þessu á vef breska ríkisútvarpsins BBC en þar segir að skyndibitakeðjan hafi ákveðið að skipta út plaströrum fyrir papparör á öllum veitingastöðum sínum í Bretlandi, sem er 1.361 talsins.

Þeir sem eru óánægðir með þessa breytingu hrintu úr vör undirskriftasöfnun þar sem kallað er eftir því að skyndibitakeðjan hverfi frá þessum áformum og bjóði upp á plaströr á ný.

McDonald´s ætlar ekki að verða við þessu ákalli þeirra 35 þúsund sem hafa skrifað undir þessa áskorun og segjast vera að breyta rétt með þessari breytingu.

BBC rekur óánægju þeirra sem kvarta undan papparörunum, sumir segja þau leysast upp í drykkjunum á meðan aðrir segja að það líkist því að sjúga mjólkurhristing í gegnum klósettrúllu.

Aðrir benda á að þeir sem eru óánægðir ættu í raun að vera þakklátir fyrir að engin af þessum plaströrum, sem annars hefðu farið í umferð, verði til staðar til að eyðileggja jörðina næstu 400 árin.

McDonald´s bendir á að framleiðandi papparöranna hafi lofað því að þau eigi að endast í allt að þrjátíu mínútur í nánast öllum drykkjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×