Innlent

Bæjarstjórinn segir íbúa slegna vegna voðaverksins í Mehamn

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Bæjarstjórinn í Gamvik segir íbúa slegna vegna voðaverksins þegar 40 ára íslenskur karlmaður var skotinn til bana í miðbæ Mehamn í gærmorgun. Hann segir marga Íslendinga búsetta á svæðinu og mikinn samhug meðal bæjarbúa.

Trond Einar Olaussen er bæjarstjóri í Gamvik og búsettur í miðbæ Mehamn rétt hjá þar  sem Gísli Þór Þór Þórarinsson var skotinn til bana í gærmorgun. 

Hann segir íbúa slegna vegna voðaverksins. 

„Þetta er mikið áfall fyrir samfélagið hér. Við erum fámennt sveitarfélag þar sem allir þekkjast fólki er afar brugðið vegna málsins,“ segir Trond. 

Áfallateymi, prestur og læknar aðstoðuðu fólk í sveitarfélaginu í gær og var ákveðið að halda minningarstund í kirkjunni. 

„Við ákváðum að opna kirkjunna og margir mættu. Fólk grét og hughreysti hvort annað og það var mikill samhugur á svæðinu,“ segir Trond. 

Hann segir að margir Íslendingar búi hlutfallslega á svæðinu.

„Íslendingar hafa komið hingað að vinna til dæmis í útgerðinni og við veiðar. Margir hafa fest hér rætur og eru mikilvægur hluti af samfélaginu hér,“ segir hann.

Trond segir mikilvægt að íbúar haldi þétt utan um hvorn annan á þessum tímum. 

„Það er mikilvægt að við styðjum hvort annað og einkum þá sem eiga um hvað sárast að binda eftir þennan harmleik. Það mun taka tíma fyrir samfélagið að ná sér eftir þetta og þá er mikilvægt að tala við hvort annað og styðja og við erum það hér í Gamvik og Mehamn. Þetta er atburður sem snertir okkur öll,“ segir Trond að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×