Umfjöllun og viðtöl: Fram - ÍBV 33-28 | Fram tryggði sæti sitt í deildinni með sigri á ÍBV í dramatískum leik

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Þorgrímur Smári skoraði fimm mörk.
Þorgrímur Smári skoraði fimm mörk. vísir/bára
Fram spilar í Olís-deildinni á næstu leiktíð eftir að liðið vann fimm marka sigur á ÍBV, 33-28, í Safamýrinni í kvöld. Leikurinn var jafn framan af en það voru gestirnir sem leiddu í hálfleik. 



Það var ansi hátt spennustigið í Safamýrinni í kvöld og allt í járnum frá fyrstu mínútu. Liðin skiptust á að leiða leikinn en munurinn aldrei meiri en tvö mörk. Staðan að fyrri hálfleik loknum, 16-17, gestunum í vil. 

Síðari hálfleikurinn byrjaði illa hjá báðum liðum. Gríðalega mikið var um tapaða bolta en gestirnir héldu forystunni fyrstu mínúturnar. Þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum snérust leikar og Fram náði tveggja marka forystu, 25-23. 

Þegar tæpar 10 mínútur voru til leiksloka leiddu heimamenn með fjórum mörkum, 28-24. Lárus Helgi Ólafsson, markvörður liðsins, hafði komið inn í seinni hálfleik og spilað vel en hann fékk beint rautt spjald fyrir brot á Friðriki Hólm. Það varð mikill hiti í leikmönnum á þessari stundum og aðeins tveimur mínútum síðar fékk Róbert Sigurðarson, leikmaður ÍBV, beint rautt spjald er hann fór í andlitið á Þorgrími Smára Ólafssyni. 

Þriggja marka munur þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum en Fram missti forystuna ekki frá sér og vann að lokum öruggan fimm marka sigur, 33-28. 



Af hverju vann Fram? 

Þetta var leikur uppá líf eða dauða og þeir voru einfaldlega mættir til að vinna. Hugarfarið og baráttan skilaði þeim þessum sigri.



Hverjir stóðu upp úr?

Þorgrímur Smári Ólafsson var frábær í liði Fram. Hann skoraði 5 mörk en skapaði svo ógrinni af færum. Svavar Kári Grétarsson var honum næstur, með 6 sköpuð færi og 4 mörk. Innkoma Lárusar Helga Ólafssonar var mikilvæg í síðari hálfleik hann varði vel og er stór ástæða þess að liðið náði að snúa leiknum sér í vil. 

Það var engin að spila yfirburðar handbolta hjá ÍBV en Hákon Daði Styrmisson var þar atkvæðamestur með 7 mörk og Dagur Arnarsson átti fínan leik í sókninni. 



Hvað gekk illa?
 

Spennustigið var gríðalega hátt í þessum leik og leikurinn bar þess merki á köflum. Það var mikið um tapaða bolta og liðin fóru oft framúr sér. ÍBV missti svo haus í seinni hálfleik og kúplaði sig út úr leiknum. 



Hvað er framundan? 

Úrslitakeppnin er næst á dagskrá þar sem ÍBV mætir FH en Fram er farið í sumarfrí. 

Þorgrímur Smári: Höfum ekkert verið að performa

„Þetta var mjög erfiður leikur“ sagði Þorgrímur Smári Ólafsson, leikmaður Fram

„Frá því að við töpuðum fyrir Aftureldingu þá vissum við að þetta yrði erfitt prógram fyrir okkur. Við bjuggumst alls ekkert við því að ÍR myndi vinna Akureyri fyrir norðan. Við vissum bara að við þyrftum að vinna þennan leik svo það var bara hugarfarið sem skóp sigurinn í dag“

Það hefur verið talað um það hversu vel mannað Fram liðið er og að þeir séu með það góðan mannskap að þeir ættu ekki að vera í þessari stöðu. Þorgrímur segir að þeir séu sjálfum sér verstir á meðan þeir sýni ekki betri fammistöðu inná vellinum

„Ef við hugsum þannig líka sjálfir en gerum svo ekkert inná vellinum þá erum við ömurlegir. Við erum með fínan mannskap en höfum ekkert verið að performa“ sagði Þorgrímur og bætir því við að þeir hafi núna nægan tíma til að lyfta og vinna í þeim sjálfum fyrir næsta tímabil. 

Það voru mikil fagnaðarlæti að leik loknum þar sem leikmönnum var vel fagnað. Þorgrímur hafði gaman að þessu og segir að það sé engu líkara en að liðið hafi verið að vinna einhvern titil en ekki að bjarga sér frá falli. Þorgrímur var allt í öllu hjá Fram liðinu og mátti vel sjá að hann hefði engan húmor fyrir því að falla með liðinu

„Ég er að þjálfa hérna, ég er að vinna hérna og er leikmaður hérna svo það var margt undir hjá mér sjálfum og það var því fínt að geta verið 100% í dag“ sagði Þorgrímur að lokum.

Guðmundur: Erum með alltof gott lið til að falla

„Að sjálfsögðu er mjög þungum farga af mér létt“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, að leik loknum þegar ljóst var að liðið hefði haldið sér uppi í Olís-deildinni 

„Ég er gríðalega stoltur af strákunum og stuðningsmönnum sem mættu hingað í dag að styðja okkur“ 

„Við komum okkur í vonda stöðu með stigasöfnun í vetur og þegar á reyndi þá tóku menn sig saman í andlitinu og spiluðu góðan leik“ 

Guðmundur segir að þeir geti sjálfum sér um kennt hvernig staðan hefði verið en segir jafnframt að liðið sé alltof vel mannað til þess að falla úr þessari deild. 

„Ég er búinn að segja það í allan vetur að við erum með of gott lið til að vera í þessari stöðu en við vorum komnir í þessa stöðu, við þurftum að vinna okkur útúr henni og það tókst loksins“

Leikmenn Fram mættu dýrvitlausir til leiks og kom aldrei neitt annað en sigur til greina. Þeir lentu þó undir gegn sterku liði Eyjamanna en um miðbik síðari hálfleiks náðu þeir tökunum á leiknum og kláruðu með góðum fimm marka sigri

„Við ætluðum að halda þeim í 27 mörkum en þeir voru komnir í 17 mörk í hálfleik. Svo við rifum vörnina upp í seinni og þá fengum við nokkra bolta varða og hraðaupphlaup sem skiptu máli. Menn höfðu bara trú á verkefninu það er númer 1, 2 og 3.“

Guðmundur segir að leikmenn og aðrir starfsmenn hafi ekki verið að fylgjast með úrslitum annara leikja en það var vitað að ef Akureyri myndi tapa sínum leik að þá skiptu úrslit þessa leiks engu máli. 

„Nei við ákváðum fyrir leik að vera ekkert að spá í því, við ætluðum að klára þetta sjálfir en ekki treysta á einhverja aðra“ sagði Guðmundur að lokum.



Kiddi Guðmunds: Þetta var ekki fallegt hjá okkur

Kristinn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, var ekki ánægður með leik sinna manna í dag og segir að þeir þurfi að sýna töluvert betri frammistöðu í úrslitakeppninni

„Við misstum fókusinn á það sem við erum að gera í dag. Varnarlega erum við reyndar í vandræðum allan leikinn en sóknarlega góðir í fyrri“

„Við létum mótlætið fara í taugarnar á okkur og sýndum á okkur karakter sem við erum ekki vanir að sýna. Við vorum með 19 tapaða bolta í leiknum sem þýðir að það vanti klárlega eitthvað uppá hjá okkur“ 

Kristinn vill ekki meina að spennustigið í leiknum hafi haft áhrif á það hvernig Eyjamenn spiluðu leikinn en bæði lið voru með ótal tapaða bolta og baráttan var mikil.

„Síðustu leikir hjá okkur hafa verið með hátt spennustig svo að er engin afsökun fyrir því. Það hlaut að koma að því að við myndum lenda í einhverjum vandræðum en þetta var bara ekki nógu fallegt hjá okkur í dag“

„Þeir voru bara betri en við, þeir voru ákveðnari en við, héldu haus betur en við og þar af leiðandi áttu þeir skilið að vinna okkur“

Úrslitakeppnin er framundan hjá ÍBV þar sem liðið mætir FH. Tvo sigra þarf til að komast áfram í undanúrslitin og Kiddi segir að liðið þurfi að sýna töluvert betri fammistöðu en þeir gerðu í dag til að þess að vinna FH

„Þetta leggst vel í mig en við þurfum að nýta þennan tíma fram að úrslitakeppni eins vel og við getum. Við vitum að við erum góðir og höfum margt uppá að bjóða en við getum alls ekki boðið uppá það sem við buðum uppá hér í dag. Það er ágætis áminning á það að vinna vel í fríinu sem við eigum framundan og mæta klárir. Við mætum FH og þetta eru tvö góð lið svo þetta getur fallið á smáatriðum.“ sagði Kristinn að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira