Fótbolti

Frakkarnir fagna mörkunum sínum á æfingum eins og þeir séu á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappé fagnaði markinu á æfingunni eins og hann þegar hann skoraði í úrslitaleik HM í Rússlandi sumarið 2018.
Kylian Mbappé fagnaði markinu á æfingunni eins og hann þegar hann skoraði í úrslitaleik HM í Rússlandi sumarið 2018. Getty/Ian MacNicol

Heimsmeistarar Frakka spila á morgun sinn fyrsta leik í undankeppni EM þegar þeir mæta Moldóvu á útivelli. Þremur dögum síðar koma strákarnir okkar í heimsókn á Stade de France.

Það má búast við því að Frakkarnir horfi á þessa tvo fyrstu leiki sem skyldusigra en Moldóva á að vera slakasta lið riðilsins ásamt Andorra og leikurinn á móti Íslandi er fyrstu heimaleikurinn.

Það er mikil keppni um sæti í byrjunarliði Frakka enda enginn smá leikmannahópur sem Didier Deschamps getur valið úr.

Þetta sést kannski á því hvernig frönsku leikmennirnir fagna mörkum á æfingum eins og sjá má hér fyrir neðan í myndbandi inn á Instagram síðu franska landsliðsins.

Kylian Mbappé sést þar skora mark sem tryggir hans liði sigur í leik á lítil mörk.

Það er ekki aðeins Mbappé sem fagnar markinu eins og mark í úrslitaleik HM heldur eru félagar hans ekki síður ánægðir með markið og sigurinn.

Í myndbandinu má sjá menn eins og Paul Pogba, Antoine Griezmann og Olivier Giroud fagna markinu með Kylian Mbappé.

Ef Frakkarnir fagna mörkum sínum svona á æfingum er rétt hægt að ímynda sér hvernig þeir munu fagna mörkum sínum á móti Moldóvu og Íslandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.