Umfjöllun og viðtöl: Grótta - ÍR 23-32 | Grótta í Grill 66 deildina

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/daníel
Grótta féll í dag niður í Grill66 deildina í handbolta karla. Grótta tapaði 32-23 gegn ÍR á Nesinu en Grótta þurfti að vinna leikinn til að eiga einhvern tölfræðilegan möguleika á að halda sér í deildinni. Stigin tvö voru sömuleiðis gríðarlega mikilvæg fyrir ÍR en þeir eru í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni.

 

ÍR komu mjög ákveðnir inn í leikinn og það sást vel að þeir vildu sýna sig eftir tapið á móti Fram seinustu helgi. ÍR spiluðu heilt yfir mjög sterkan leik í dag. Varnarlega náðu þeir upp mikilli stemningu og sóknarlega náðu þeir trekk í trekk að koma sér í góð færi. 

 

Það var dauft yfir Hertz höllinni í dag. Það var ekki kveikt á keppnisljósunum fyrr en korter var búið af leiknum og það lýsir dálítið stemningunni hjá heimamönnum. Mikið var um meiðsli hjá Gróttu og hvorugur markmanna Gróttu í leiknum er búinn að spila á þessu tímabili nema í þessum leik. 

 

Inni á vellinum var smá barátta hjá heimamönnum en ekki mikil. Varnarleikurinn var ekki frábær en sóknin var bara ekki nægilega góð. Trekk í trekk gerðu Grótta tæknifeila og þeir áttu gríðarlega erfitt með að skapa sér færi. ÍR voru komnir yfir með 5 mörkum eftir tæpt korter og sigurinn var aldrei í hættu. Alltaf þegar Grótta náðu að byrja smá áhlaup þá gerðu þeir nokkur slæm mistök í röð sem gaf ÍR forskotið sitt aftur. 

 

Af hverju vann ÍR?

ÍR var betri liðið í öllum þáttum leiksins í dag. Þeir spiluðu frábærlega varnarlega og nýttu sér það til að komast oft í hraðaupphlaup. 

 

Hverjir stóðu upp úr?

Bergvin Þór Gíslason var frábær í sókn og skilaði líka sínu varnarlega í dag. 12 mörk úr 13 skotum og 2 stoðsendingar er allt sem segja þarf. Sturla Ásgeirsson minnti áhorfendur á sín gæði í dag með virkilega góðri frammistöðu sömuleiðis en hann var með 9 mörk úr 11 skotum. 

 

Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði bara 3 mörk í dag en var mjög góður að spila boltanum. Hann endaði með 5 stoðsendingar og var gríðarlega mikilvægur í sóknarleik ÍR. Þristarnir í vörninni hjá ÍR voru báðir seigir í dag, Þrándur Gíslason Roth og Sveinn Jóhannsson. Þeir létu Gróttu hafa fyrir hlutunum og skiluðu heilt yfir góðu dagsverki. 

 

Hjá Gróttu var Jóhann Reynir Gunnlaugsson sennilega bestur en hann var með 6 mörk og 4 stoðsendingar. 3 tapaðir boltar og léleg skotnýting situr smá strik í reikninginn en það verður að taka það með sóknarleikur Gróttu var almennt mjög hugmyndasnauður í dag. 

 

Hvað gerist næst?

ÍR fá Stjörnuna í heimsókn á miðvikudaginn í algjörum lykilleik. Með sigri eru ÍR mjög líklegir í úrslitakeppnina en með tapi stefna þeir á að fara snemma í sumarfrí. 

 

Grótta smellier sir á Selfoss á miðvikudaginn en þeir vilja eflaust enda dvöl sína í Olís deildinni á góðu nótunum. 

 

Jóhann Reynir: Gríðarleg vonbrygði

„Við fáum á okkur alltof mikið af mörkum og skorum ekki nógu mörg. Of mikið af tæknifeilum. Við látum þá líka verja allt of mikið frá okkur en það bara hitt og þetta sem fór með okkur í dag, ”sagði Jóhann Reynir Gunnlaugsson leikmaður Gróttu eftir leik kvöldsins. Jóhann var mjög svekktur með tapið og vildi kenna þessum þáttum um tapið. 

 

Það er mikið um meiðsli í Gróttu liðinu og mátti sjá á leikmannahópnum að það vantaði marga menn. Tímabilið hjá Gróttu er mikið búið að einkennast af meiðslum. 

 

„Þetta er búið að vera svona í allan vetur. Við erum orðnir svolítið vanur þessu svo þetta labbaði ekkert upp að okkur. Þetta tekur samt á þegar það eru fjórir meiddir og það er alltaf annar maður við hliðin á manni. Það tekur auðvitað aðeins úr okkur en það er engin afsökun.” 

 

Grótta eru staðfest fallnir eftir úrslit dagsins. Jóhann kom til liðsins fyrir tímabilið og hann var eflaust ekki fengin til liðsins til að hjálpa því að lenda í 12. sæti. Hann var vissulega mjög svekktur eftir leikinn.  

 

„Þetta eru alveg gríðarleg vonbrigði. Það var ekki planið að falla, planið var að halda sér í deildinni og gera kannski aðeins betur en það. Það því miður tókst ekki. Það er náttúrulega bara ömurletg.” 

 

Það eru tvær umferðir eftir af tímabilinu þrátt fyrir að Grótta sé fallinn. Þeir ætla að mæta til leiks og reyna að gera sitt besta þrátt fyrir farseðilinn í Grill 66 deildina. 

 

„Við ætlum að gera okkur besta og reyna þessa leiki. Eins og alla hina leikina í vetur. Þó þú sért falinn þá ferðu ekkert í leikinn til að tapa. Það er bara áfram gakk og næsti leikur á að vera sigur.” 

 

 

Einar: Sóknarleikurinn ekki góður í vetur

„Það er margt sem við hefðum getað gert betur í dag. Varnarlega erum við bara mjög flatir, við hefðum klárlega getað gert betur þar. Það var líka mikið af tæknifeilum. Þegar fljótt er þetta það helsta sem fór úrskeiðis hjá okkur í þessum leik,” sagði Einar Jónsson þjálfari Gróttu eftir leik. 

 

Mikið er meiðsli í Gróttu liðinu og veltu eflaust einhverjir áhorfendur fyrir sér hvaða leikmenn þetta voru í markinu en hvorugur þeirra var búinn að vera í hóp áður á þessu tímabili.

 

„Ísak heitir sá sem byrjaði leikinn. Hann er búinn að vera þriðji markmaður hjá okkur í allan vetur og hann er búinn að vera að bíða eftir sínu tækifæri og stóð sig vel fannst mér.” 

 

„Arnar Sveinbjörnsson var varamarkmaður. Það kom í ljós í gær bara eiginlega að hvorugur af venjulegu markmönnunum okkar gat verið með í dag. Við reyndum að leysa það með einhverjum hætti og Arnar kom.” 

 

„Þetta er auðvitað búið að vera erfitt, það segir sig sjálft. Það er alltaf erfitt að vera í einhverri fallbaráttu. Ég á erfitt með að lýsa því með einhverjum orðum en menn verða bara að læra af þessu. Það er númer eitt, tvö og þrjú,” sagði Einar aðspurður hversu erfitt tímabilið hafi verið fyrir hann og hans leikmannahóp. 

 

Grótta byrjaði tímabilið ágætlega og náði í 5 stig í fyrstu 6 umferðunum. Síðan þá hefur stefnan verið sett niður en í seinustu 16 umferðum hefur Grótta einungis náð í 3 stig. 

 

„Fljótt á litið er sóknarleikurinn okkar bara alls ekki búinn að vera góður í vetur. Það er aðallega það sem er búið að trufla okkur. Markvarslan hefur verið mjög fín í vetur en sóknarleikurinn hefur verið að stríða okkur en við höfum bara ekki verið að finna lausnir.” 

 

Í viðtali við Vísi síðasta sunnudag eftir leik gegn Stjörnunni talaði Einar um að dómgæslan hafi alltof oft í vetur verið ekki nægilega góð. Það var gaman að hann eins og flestir voru ánægðir með dómara dagsins og hrósaði þeim. 

 

„Dómararnir voru mjög góðir í dag. Þeir dæmdu mjög vel. Ég er rosa ánægður með þá og þeir eiga það bara skilið. Maður hrósar þeim og maður þarf líka að kenna þeim stundum, það er bara þannig. Þetta var allavega enginn skrípaleikur í dag.” 

 

Eins og áður hefur komið fram hér féllu Gróttu með þessum úrslitum. Einar hefur samt sem áður trú á félaginu en vill sjá uppbyggingu á næstunni. 

 

„Ég vona fyrst og fremst að menn haldi áfram. Fall er alltaf leiðinlegt en það eru möguleikar á að byggja þetta upp og gera þetta. Ég vona að Grótta sæki fram og það eru leikmenn hérna sem eru með stórt Gróttuhjarta. Ég vona að mönnum gangi vel að byggja upp. Það þarf að gera það og það á ekkert að vera til að gefast upp.” 

 

Bjarni: Þetta er virkilega gaman

ÍR töpuðu á heimavelli gegn Fram í síðasta leik sem er alls ekki nógu gott ef þeir ætla sér í úrslitakeppnina. Bjarni vildi samt ekki meina að það hafi hjálpað hvatninguna fyrir þennan leik að hafa tapað síðasta leik illa. 

 

„Jú en það var alveg jafn auðvelt að hvetja þá fyrir leikinn gegn Fram. Við vorum bara að gera mjög slæm mistök varnarlega. Það drepur dálítið niður stemninguna þegar maður spilar lélega vörn. Þá myndast á óöruggi og við unnum aðallega í því.” 

 

„Þetta skrifast eiginlega bara smá á mig. Eftir bikarhelgina í Hauka leiknum þá duttum við aðeins úr kerfinu. Ég brást ekki nægilega vel við fyrir Fram leikinn, ég afskrifaði þetta bara á bikarþynnku eins og þetta er oft. Í staðinn fyrir að greina vandamálið og leysa hann síðan eins og við gerðum hérna í dag. Við fórum mjög vel yfir það og náðum vörninni aftur eins og hún er búin að vera í allan vetur.” 

 

Er eitthvað sem hefði mátt betur fara í ykkar leik í dag?

 

„Það er reyndar eitt hérna í seinni hálfleik sem ég er ekki nógu ánægður með. Við munum undirbúa það mjög vel þar sem að næsti leikur er á móti Stjörnunni. Til dæmis gekk það ekki nægilega vel en ég ætla nú ekki að vera að segja þér hvað það er.” 

 

Hvernig leggjast næstu leikir í þig þar sem þið eruð í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni?

 

„Þetta er bara virkilega gaman. Við þurfum bara að hugsa um okkur. Við eigum tvo leiki og næsti leikur hjá Stjörnunni er heima hjá okkur. Við þurfum að fá fólkið til að mæta og fylla húsið. Við þurfum að búa til góða stemningu og við þurfum að byrja á að vinna þann leik. Svo fer þetta bara eins og þetta fer.” 

 

Stuðningsmenn ÍR voru áberandi á köflum í leiknum eins og oft áður á þessu tímabili. Stuðningsmenn ÍR bæði handbolta og körfubolta eru búnir að vera frábærir á tímabilinu og Bjarni var mjög ánægður með þá í dag. 

 

„Við erum búnir að fá góðan stuðning í allan vetur. Í seinasta leik á móti Fram fengum við frábæran stuðning þrátt fyrir að það hafi verið átta liða úrslitaleikur hjá körfunni á sama tíma. Það var mjög vel mætt. Maður var smeykur þar sem það var stór leikur í hverfinu annarsstaðar en það var bara hörkumæting. Við erum með sterka stuðningsmenn sem styðja vel við bakið á okkur. ” 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira