Körfubolti

Lovísa aðeins einum sigri frá því að fá að taka þátt í Mars-æðinu í Bandaríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lovísa Henningsdóttir.
Lovísa Henningsdóttir. Mynd/Twitter/@MaristWBB
Lovísa Henningsdóttir og félagar hennar í Marist körfuboltaliðinu fá í kvöld tækifæri til tryggja sér þátttökurétt í úrslitakeppni bandaríska háskólaboltans sem gengur oftast undir nafninu March-Madness.

Marist liðið er komið í úrslitaleikinn í MAAC-deildinni en liðið mætir núverandi meisturum, Quinnipiac Bobcats, í úrslitaleik. Sigurvegarinnar í MAAC-deildinni fær sæti í 64 liða úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans.

Lovísa Henningsdóttir er á lokaári sínu með Marist liðinu en hún er uppalin í Haukum og spilaði með Haukaliðinu áður en hún fór út í nám til Bandaríkjanna.





Marist vann tíu stiga sigur á Rider skólanum í undanúrslitunum, 62-52, þar sem Lovísa var með 12 stig, fráköst, 1 varið skot og 1 stolinn bolta á 28 mínútum. Lovísa var með 10 stig, 3 fráköst og 1 varið skot á 19 mínútum í leiknum við Manhattan háskólann í átta liða úrslitunum.

Það er ekki á hverjum degi sem við Íslendingar eigum fulltrúa í Mars-æðinu og Lovísa getur orðið fyrsta íslenska konan til að spila þar síðan að Helena Sverrisdóttir náði því með TCU-háskólanum 2008/09 og 2009/10.





Lovísa Henningsdóttir hefur skorað 669 stig og tekið 337 fráköst í 114 leikjum sínum með Marist en hún hefur líka sett niður 121 þrist og nálgast óðum topplistann yfir flestar þriggja stiga körfur í sögu skólans. Lovísa varði líka sitt hundraðasta skot á háskólaferlinum í undanúrslitaleiknum.

Marist tapaði þessum sama úrslitaleik á móti Quinnipiac í fyrra en Quinnipiac liðið hefur unnið MAAC-deildina undanfarin tvö ár.

Hér fyrir neðan má sjá myndbrot með körfuboltaliði Marist en Lovísa Henningsdóttir spilað auðvitað númer fimm eins og pabbi sinn, Henning Henningsson, sem var fyrirliði Íslandsmeistara Hauka árið 1988.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×