Handbolti

Kampakátir GOG-menn segjast vera að fá líkamlegt undur í Arnari Frey

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Freyr Arnarsson í Meistaradeildarleik á móti Veszprém.
Arnar Freyr Arnarsson í Meistaradeildarleik á móti Veszprém. epa/BOGLARKA BODNAR
Eins og greint var frá í morgun skiptir íslenski landsliðslínumaðurinn Arnar Freyr Arnarson um lið í sumar er hann gengur í raðir GOG í Danmörku frá Svíþjóðarmeisturum Kristianstad.

Þessi 22 ára gamli strákur fór frá Fram til Kristianstad fyrir tveimur árum og er búinn að vinna sænsku deildina tvívegis en fátt virðist stoppa liðið á leið sinni að þriðja titlinum á þremur árum.

GOG er að safna liði fyrir næstu leiktíð en ljóst er að það missir markahæsta leikmann dönsku úrvalsdeildarinnar, Nicklas Kirkelökke, til Rhein-Neckar Löwen og markvörðurinn þrautreyndi Ole Erevik leggur skóna á hilluna.

Annar tveggja línumanna liðsins, Lars Hold, mun sömuleiðis að leggja skóna á hilluna og því er GOG að fá Arnar Frey. GOG hefur alltaf viljað spila á ungu liði og því eru menn á Fjóni heldur betur sáttir að yngja svona upp samkvæmt dönskum miðlum.

Arnar Freyr er glæsilegt eintak af karlmanni en hann er 201 cm á hæð og 113 kíló með mikla reynslu úr sænsku deildinni og sömuleiðis úr Meistaradeildinni. Þetta kunna GOG-menn að meta.

„Hann er líkamlegt undur. Hann er ungur sóknarþenkjandi leikmaður sem hefur gert það gott með Kristianstad í nokkur ár. Hann er með reynslu frá íslenska landsliðinu og úr Meistaradeildinni. Hann smellpassar inn í okkar framtíðarplön,“ segir Kasper Jörgensen, yfirmaður íþróttamála hjá GOG, við TV2.

Íslenska landsliðið er í miklum vandræðum þegar kemur að línumannsstöðunni en lengi hefur okkur vantar línumenn sem að spila bæði vörn og sókn á hæsta þrepi. GOG ætlar að hjálpa okkur Íslendingum með það.

„Hann mun spila vörn og sókn. Hann mun spila miðvörð í varnarleiknum og vera á línunni í sóknarleiknum. Við getum vonandi nýtt alþjóðlega reynslu hans á næsta ári því við ætlum okkur að vera í Evrópu á næstu leiktíð,“ segir Kasper Jörgensen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×