Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Stjarnan 26-27 | Ótrúlegar lokamínútur í Iðu

Arnar Helgi Magnússon í Hleðsluhöllinni á Selfossi skrifar
Stjörnumenn fögnuðu á Selfossi
Stjörnumenn fögnuðu á Selfossi vísir/bára

Topplið Selfyssinga mætti Stjörnunni í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld. Fyrir leikinn sat Stjarnan í sjötta sæti deildarinnar en eins og fyrr segir, Selfyssingar á toppnum með jafnmörg stig og Haukar.

Selfyssingar voru sterkari fyrstu mínúturnar og náðu mest þriggja marka forystu þegar einungis sex mínútur voru liðnar af leiknum. Það leit ekkert út fyrir annað en að Selfyssingar væru að fara að valta yfir lið Stjörnunnar í kvöld.

Rúnar Sigtryggsson þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé í stöðunni 5-2 fyrir Selfossi, eftir það var ekki aftur snúið. Stjarnan náði að vinna sig inn í leikinn og þegar tæpar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum höfðu gestirnir náð forystunni, 8-9. Selfyssingar voru þá byrjaðir að elta en seiglan og baráttan í liði Stjörnunnar réði ríkjum sem uppskar þriggja marka forystu í hálfleik, 12-15.

Stjörnumenn náðu að halda forystunni dágóða stund inn í síðari hálfleik en þeir voru komnir fimm mörkum yfir þegar einungis tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Áhlaup Selfyssinga hófst þá með Elvar Örn og Atla Ævar fremsta í flokki.

Selfyssingar náðu að jafna leikinn þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka og skiptust liðin á að hafa forystuna síðustu mínúturnar, þó munaði aldrei meira en tveimur mörkum á liðunum. Síðasta mínútan fer í sögubækurnar en Atli Ævar minnkaði muninn fyrir Selfoss þegar fimmtán sekúndur voru eftir af tímanum. Stjarnan brunaði í sókn en Hergeir Grímsson brýtur á leikmanni Stjörnunnar og þá fer allt í háaloft. Stía þurfti leikmenn í sundur og þrír fengu tveggja mínútna brottvísun.

Stjörnumaður missir boltann og Elvar ætlar að taka langt skot yfir völlinn en Leó Snær hleypur í veg fyrir hann og fær beint rautt spjald og Selfyssingar fá vítakast. Einar Sverrisson fer á vítalínuna en hann lét Sigurð Ingiberg verja frá sér sem átti flottan leik í marki Stjörnunnar í fjarversu Sveinbjarnar Péturssonar sem meiddist í upphitun.

Lokatölur því 26-27, Stjörnunni í vil og fögnuðu þeir vel og innilega í leikslok enda fyrsta liðið til þess að leggja Selfyssinga í Hleðsluhöllinni í Olísdeildinni.

Afhverju vann Stjarnan?
Frá því að Rúnar tók leikhléið í byrjun leiks var lið Stjörnunnar frábært. Rúnar kláraði leikhléin þegar sautján mínútur voru eftir af leiknum og breytti því sem breyta þurfti. Varnarleikur Stjörnunnar var góður og náðu þeir að þvinga Selfyssinga í erfið skot. Stjarnan virtist trúa því allan tímann að þeir væru að fara að sigra leikinn þó svo að Selfyssingar hafi komið til baka undir lok leiksins.

Hverjir stóðu uppúr?
Sigurður Ingiberg kom óvænt inn í lið Stjörnunnar eftir að Sveinbjörn meiddist í upphitun. Hann var með 35% markvörslu og þar af þrjú varin víti. Hann varði á gríðarlega mikilvægum tímapunktið og tryggði Stjörnunni sigur þegar hann varði vítið frá Einari í lokin.

Egill Magnússon skoraði átta mörk úr fimmtán skotum.

Sölvi Ólafsson kom frábær inn í mark Selfyssinga á lokakaflanum og varði níu skot og var með yfir 50% vörslu. Elvar Örn var atkvæðamestur með átta mörk, Atli Ævar með sex.

Hvað gekk illa?
Sóknarleikur beggja liða var oft á tíðum mjög tilviljanakenndur og virklega mörg skot sem hittu ekki á markið í kvöld. Varnir liðanna náðu halda aftur af helstu sóknarvopnum andstæðingsins þrátt fyrir átta mörk frá Agli og Elvari. Einar og Árni náður sér til að mynda engan veginn á strik og sama má segja um Ara Magnús og Aron Dag.

Hvað gerist næst?
Þessi leikur var sá fyrsti í þriggja leikja heimaleikjatörn Selfyssinga. Selfoss mætir ÍR mánudaginn 10. desember áður en að þeir taka á móti Akureyri í síðasta leik fyrir jóla- og landsleikjafrí, báðir leikir í Hleðsluhöllinni.

Stjarnan á erfiðan útileik framundan í Mosfellsbæ þar sem þeir mæta Aftureldingu eftir viku, sunnudaginn 9. desember.

Rúnar: Er ekki ennþá nóvember?
„Við unnum allavega. Hvernig við förum að því að gefa þeim víti hérna í lokin, úff. Við þökkum bara fyrir að hafa fengið tvö stig en ekki eitt,“ sagði Rúnar Sigtryggson þjálfari Stjörnunnar eftir sigurinn á Selfyssingum í kvöld.

„Mér fannst við tapa öllum „strúktúr“ í seinni hálfleik. Eins mikið og ég hrósaði Aroni fyrir leikstjórnendahlutverkið eftir síðasta leik gegn ÍR þá var hún ekki nógu góð í kvöld á móti Selfyssingum, samt höfum við þetta. Hann vildi síðan gera þetta spennandi í lokin með þessari ótrúlegu sendingu þegar fjórar sekúndur voru eftir.“

Rúnar segir að það hafi verið virkilega skemmtilegt að koma og spila í Hleðsluhöllinni í kvöld.

„Það var frábær stemning hérna í kvöld og þetta er skemmtilegasti útivöllurinn í deildinni, ég held það það sé alveg pottþétt.“

Selfyssingar byrjuðu leikinn betur og náðu strax þriggja marka forystu þegar einungis tæpar sex mínútur voru liðnar af leiknum. Eftir leikhléið breyttist leikur Stjörnunnar og þeir unnu sig inn í leikinn. Hvað sagði Rúnar í leikhléinu?

„Ég man það ekki. Ég man að við fórum í tvöfaldar skiptingar en höfðum ekki verið í neinum skiptingum, við settum Árna inn í vörnina og Garðar inn í sóknina. Við fórum síðan í 5+1 vörn og það gerði útslagið fannst mér.“

„Þeir töpuðu boltanum tvisvar í röð og við náðum að jafna leikinn, ég man þetta ekki alveg. Ég get ekki útskýrt þetta. Nóvember má bara halda áfram.“

Sveinbjörn Pétursson tók ekki þátt í leiknum vegna óhapps sem að hann varð fyrir í upphitun.

„Skömmu eftir að ég gaf þér liðsuppstillinguna þá fékk hann bolta í augað og sá ekkert, þannig að hann var ekki með í dag.“

Sigurður Ingiberg var flottur í fjarveru Bubba í markinu.

„Já, Sigurður var 70% í síðasta leik og hann var flottur í dag.“

Ummæli Rúnars fyrir mótið vöktu athygli þegar hann talaði um að sitt lið yrði ekki tilbúið fyrr en í nóvember. Rúnar laug því engu enda hefur liðið nú unnið fimm leiki í röð.

„Er ekki ennþá nóvember? Við erum að komast í gang og það voru nokkur atriði sem ég var búinn að fara yfir. Nýr þjálfari kemur með aðrar áherslur og mér finnst vera gangur í þessu. Það er klassi að fá tvö stig út úr svona jöfnum leik á erfiðum útivelli. Þetta er allt til fyrirmyndar í kvöld,“ sagði Rúnar Sigtrygggsson.

Patti: Veit ekki hvort þeir hafi átt þetta skilið
„Það er bara upp með hausinn og áfram. Það er alltaf vont að tapa og alvöru keppnismenn eru tapsárir, og við erum það. Við vildum vinna í dag og við vorum nálægt því,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss eftir tapið gegn Stjörnunni í kvöld.

„Þeir unnu en ég veit ekkert hvort þeir hafi átt það skilið. Við byrjuðum betur í leiknum og þegar svona tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var Stjarnan sterkari, sem og í byrjun síðari hálfleik.“

„Við breytum síðan og tökum Egil út og vorum þá komnir í stöðuna 24-22 og þá vorum við sterkari. Í restina tökum við vitlaustar ákvarðnir og of mikla sénsa í staðin fyrir að spila okkur í gegn.“

Pawel var frábær í fyrri hálfleik en í þeim síðari fór að halla undan fæti hjá honum og Sölvi kom flottur inn í markið. Patrekur er ánægður með störf Pawel á Selfossi.

„Hann er frábær markmaður og karakter. Ég er hrikalega ánægður með hann. Hann þarf að læra á deildina, það er alltaf erfitt að koma inn í nýtt land og ég þekki það sjálfur. Ég er sammála þér, hann á frábæra kafla en síðan finnst mér hann stundum eiga að taka meira bara eins og í dag.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.