„Já, þetta var svakalegt. Þetta var ótrúlegur fjöldi,“ segir Nuno Alexandre Bentim Servo, einn eigenda Sæta Svínsins í Hafnarstræti, aðspurður um hermannaflóðið. Hann áætlar að á bilinu 6 til 7 þúsund dátar hafi marserað á milli kráa miðborgarinnar þegar mest var, í bland við þúsundir annarra erlendra ferðamanna sem enn setja svip sinn á næturlífið.
Þorsti dátanna var með slíkum ólíkindum að bjórdælur á knæpum borgarinnar höfðu vart undan. Þannig kláruðust bjórbirgðirnar ekki aðeins á Sæta svíninu heldur jafnframt á fleiri krám vestan Lækjargötu - til að mynda á American Bar við Austurstræti. Því hafi kráareigendur þurft að ræsa út bakvakt Ölgerðarinnar sem flutti hundruð bjórkúta til miðborgarinnar svo að svala mætti þorsta hermannanna. Vísir hringdi í Ölgerðina í morgun sem staðfesti að álagið hafi verið mikið um helgina. „Þeir voru duglegir, blessaðir“ segir starfsmaður Ölgerðarinnar.

Dátarnir drukku einna helst íslenskan bjór í bæjarferðum sínum og segir Nuno að þeir hafi verið duglegir við að smakka staðbundnar tegundir. Þá segir hann að stéttaskiptingin innan hersins hafi verið bersýnileg í staðarvali hermannanna. Þeir sem eldri eru og ofar í virðingarröðinni lögðu einna helst leið sína á veitingastaði borgarinnar. Óbreyttir hermenn herjuðu hins vegar á barina og segir Nuno að svo hafi virst sem þeir háttsettu hafi haft lítinn áhuga á að blanda geði við undirmenn sína.
Þrátt fyrir hermannafjöldann hér á landi bliknar hann í samanburði við þær tugþúsundir dáta sem koma saman í Noregi til æfinga fyrir Atlantshafsbandalagið. Nuno getur ekki annað en vorkennt norskum starfsbræðrum sínum eftir átök síðustu daga. „Mér skilst að á aðalæfingunni í Noregi verði hermennirnir líklega um 40 þúsund. Það þarf því líklega að sækja bjór til Finnlands eða eitthvað,“ segir Nuno léttur í bragði.