Umfjöllun: Ísland - Grikkland 35-21 │Strákarnir keyrðu yfir Grikki í síðari hálfleik

Benedikt Grétarsson í Laugardalshöll skrifar
Arnór Þór Gunnarsson skorar eitt af sínum mörkum í kvöld.
Arnór Þór Gunnarsson skorar eitt af sínum mörkum í kvöld. vísir/daníel
Íslenska karlalandsliðið í handbolta hóf vegferð sína í átt að EM 2020 með öruggum sigri gegn Grikklandi í Laugardalshöll í kvöld.

Lokatölur urðu 35-21 en Ísland mætir næst Tyrklandi á útivelli um næstu helgi. Auk fyrrnefndra liða eru Makedóníumenn í þessum undanriðli.

Bjarki Már Elísson var markahæstur með sex mörk en fimm leikmenn liðsins skoruðu fimm mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði þrjú skot og Aron Rafn Eðvarðsson kom mjög sterkur inn og varði níu skot.

Strákarnir okkar mættu ekki alveg nógu einbeittir í verkefnið í upphafi leiks. Grikkir léku engan tímamótahandbolta en náðu að slíta vörn íslands í sundur með einföldum klippingum.

Gestirnir héldu í við íslenska liðið og í stöðunni 9-8 var Guðmundi Guðmundssyni nóg boðið og fyrsta leikhlé kvöldsins leit dagsins ljós.

Síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiks voru mun skárri hjá íslenska liðinu og ágætum tökum var náð. Aron Rafn kom í markið og varði nokkra bolta og Arnar Freyr Arnarsson reyndist Grikkjum erfiður á línunni.

Þegar frekar tilþrifalitum fyrri hálfleik lauk, hafði Ísland náð fjögurra marka forystu, 17-13. Það vakti nokkra athygli að Grikkir fengu sex brottvísanir í fyrri hálfleik, sem verður að teljast i meira lagi.

Ómar Ingi Magnússon brýst í gegnum götótta vörn Grikkja í kvöld.vísir/daníel
Seinni hálfleikur var alls ekkert svipaður þeim fyrri, sem betur fer.

Strákarnir fóru að taka verkefnið alvarlega og færslur varnarlega vöru töluvert betri en fyrstu 30 mínútur leiksins. Sóknin var mjög vel smurð og smá saman náðu Íslendingar heljartökum á leiknum.

Áður en ráðvilltir Grikkir vissu, var munurinn kominn í 10 mörk, 28-18 og björninn unninn. Guðmundur Guðmundsson gat leyft sér að hreyfa liðið sitt mikið á lokakaflanum og gefa öllum mínútur.

Flestir svöruðu kallinu vel og vert er að minnast á frammistöðu Sigvalda Guðjónssonar sem kom virkilega sterkur inn á lokakafla leiksins.

14 marka sigur niðurstaðan og nú er bara að taka tvö stig í Tyrklandi næstu helgi.

Strákarnir okkar fagna með stuðningsmönnum Íslands í leikslok.vísir/daníel
Af hverju vann Ísland leikinn?

Með fullri virðingu fyrir gríska landsliðinu, þá eru íslensku strákarnir einfaldlega á miklu hærra getustigi. Sennilega hefði tap á heimavelli gegn Grikklandi farið í sögubækurnar sem „Hryllingskvöldið í höllinni“ en strákarnir léku vel og lönduðu öruggum sigri. Sóknarleikurinn var í raun góður allan tímann og gott að vita að liðið á engu að síður nokkra sterka leikmenn inni á þeim vígstöðvum.

Hverjir stóðu upp úr?

Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson kom mjög sterkur inn í leikinn í seinni hálfleik og skoraði sex glæsileg mörk. Aron Rafn lék vel í markinu og Sigvaldi átti eftirminnilega innkomu á lokakafla leiksins. Það er engu að síður erfitt að taka einstak menn út úr liðinu, þar sem mjög margir lögðu hönd á plóg.

Hvað gekk illa?

Strákunum gekk bölvanlega að eiga við Grikki í fyrri hálfleik. Það var alltof auðvelt fyrir gestina að spila sig í góð færi og ljóst að varnarleikurinn þarf að batna þegar leikið verður gegn sterkari andstæðingum. Grikkjum gekk mjög illa að hanga inni á vellinum en alls fengu hinir blóðheitu gestir 10 brottvísanir í leiknum gegn sex brottvísunum Íslands.

Hvað gerist næst?

Strákarnir halda til Ankara í Tyrklandi og mæta þar heimamönnum í afar krefjandi aðstæðum. Á eðlilegum degi á Ísland þó alltaf að vinna Tyrkland í handbolta. Við skulum vona að það verði boðið upp á eðlilegan dag í Tyrklandi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira