Handbolti

Stóð aldrei til að Gísli yrði í stóru hlutverki hjá Kiel á fyrsta ári

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson fór til Kiel eftir tímabilið með FH.
Gísli Þorgeir Kristjánsson fór til Kiel eftir tímabilið með FH. Vísir/Andri Marinó

Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, hefur ekkert spilað með þýska stórliðinu Kiel á undirbúningstímabilinu vegna meiðsla á öxl sem að hann varð fyrir í leik á móti ÍBV í úrslitakeppni Olís-deildarinnar síðasta sumar.

Hann mun fá tíma til að ná sér af meiðslunum en Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að þar á bæ eru menn ekkert að flýta sér með þennan unga leikstjórnanda.

„Við erum bara með hann í uppbyggingu eftir meiðslin og ætlum ekki að tefla á tvær hættur í þeim efnum heldur gefa okkur og honum þann tíma sem þarf til þess að hann nái fullri heilsu. Gísli Þorgeir er ungur og ekki hægt að taka neina áhættu í þeim efnum,“ segir Alfreð.

Gísli var ofurstjarna í Olís-deildinni á síðustu leiktíð með FH-liðinu sem endaði í 2. sæti eftir tap fyrir ÍBV í úrslitarimmunni. Nú er hann kominn í svakalega samkeppni og stefnir í að hann spili ekki svo mikið á þessu síðasta tímabili Alfreðs með liðið.

Þetta á ekkert að koma á óvart, að sögn Alfreðs, en aldrei stóð til að Gísli yrði í stóru hlutverki hjá liðinu á fyrsta ári. Meiðslin hafi þó vissulega sett strik í reikninginn.

„Gísli Þorgeir hefur ótvíræða hæfileika en þarf að taka sér tíma til þess að koma sér inn í allt hér og æfa almennilega eftir að hafa náð öxlinni í lag áður en hann fer að spila með okkur,“ segir Alfreð Gíslason.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.