Handbolti

Aron lagði sigursælasta liðið og er kominn í undanúrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Kristjánsson er að gera flotta hluti með Barein.
Aron Kristjánsson er að gera flotta hluti með Barein. vísir/getty

Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í Barein unnu flottan sigur, 27-25, á Suður-Kóreu í milliriðli tvö á Asíuleikunum í handbolta en með sigrinum tryggðu strákarnir hans Arons sér sæti í undanúrslitum leikanna.

Barein-liðið var með tveggja marka forskot í hálfleik og lét það aldrei af hendi í seinni hálfleik og vann á endanum sannfærandi sigur. Liðið var mest fjórum mörkum yfir á lokakaflanum.

Aron er búinn að vinna alla fimm leikina með Barein á Asíuleikunum, þrjá í riðlakeppninni og nú tvo fyrstu í milliriðlinum. Næst á liðið fyrir höndum auðveldan leik á móti Hong Kong.

Suður-Kórea er sigursælasta lið Asíuleikanna frá upphafi en það hefur unnið handboltann á leikunum fimm sinnum af þeim átta skiptum sem keppt hefur verið íþróttinni á Asíuleikunum síðan árið 1982.

Suður-Kórea hefur alltaf nema einu sinni fengið verðlaun en liðið hafnaði í fjórða sæti árið 2006 þegar að leikarnir fóru einmitt fram í Barein. Barein náði sínum besta árangri fyrir fjórum árum í Suður-Kóreu þegar að það hafnaði í þriðja sæti.

Aron gæti mætt Degi Sigurðssyni og japanska liðinu í undanúrslitum en Japan á leik við Írak í dag í milliriðli eitt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.