Körfubolti

„Hver er að klappa núna, tík?“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Diana Taurasi minnti heldur betur á sig í gær.
Diana Taurasi minnti heldur betur á sig í gær. vísir/getty

Á meðan daglega er deilt um hvor kunni meira fyrir sér í körfuboltafræðunum Michael Jordan eða LeBron James er ekki þörf á sömu umræðu í kvennakörfunni. Þar er sú bandaríska Diana Taurasi best frá upphafi. Næsta mál.

Taurasi hefur á ævintýralegum fjórtán ára ferli unnið WNBA-deildina þrisvar sinnum auk þess að skreppa til Evrópu á veturnar eins og þær bestu gera og vinna Meistaradeildina sex sinnum.

Afrekaskrá hennar er margar blaðsíður en Taurasi hefur níu sinnum verið valin í stjörnulið WNBA-deildarinnar, tvisvar sinnum verið útnefnd besti leikmaður lokaúrslitanna og þá er hún fjórfaldur Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu og stigahæsti leikmaður WNBA-deildarinnar frá upphafi. Svo eitthvað sé nefnt.

Taurasi sýndi í nótt enn og aftur, 36 ára gömul, að það er enginn að fara að ógna henni á stallinum í bráð þegar að hún skoraði 27 stig í 15 skotum, gaf tólf stoðsendingar og tapaði boltanum aldrei í sigri Phoenix Mercury gegn Connecticut Sun.

Leikurinn var í annarri umferð úrslitakeppninnar þar sem aðeins þarf að vinna einn leik til að komast í undanúrslitin en Taurasi átti aðra eins frammistöðu í fyrstu umferðinni þar sem að liðið lagði Dallas Wings. Taurasi hefur nú unnið þrettán svona leiki á ferlinum þar sem að aðeins einn leik þarf til að komast áfram en aldrei tapað. Hún er leikmaður stóru stundanna.

Taurasi var í miklum ham í gær en hún hafði takmarkaðan húmor fyrir Instagram-færslu Coutney Williams, leikmanns Sun, sem minnti á leikinn á Instagram með mynd af sér að fagna fyrir framan súra Taurasi.

View this post on Instagram

Gooo timeee!! Playoffs babyyyyy

A post shared by Courtney Williams (@courtneywilliams10) on


Ekki gerðu Sun-stelpur minna til að pirra þá bestu þegar að Jasmine Thomas klappaði saman höndum fyrir framan andlitið á Taurasi í fyrri hálfleik en Taurasi klappaði til baka ansi pirruð. Þegar að lokaflautið gall klappaði Taurasi aftur í átt að Thomas og kallaði svo á eftir henni: „Hver er að klappa núna, tík?“

Hún minntist svo aðeins á þetta í viðtali eftir leik þar sem að hún var spurð hver er galdurinn á bakvið að vinna alltaf í þessum leikjum þar sem að allt er undir.

„Þú mátt ekki vera hræddur. Það er ekkert mál að setja myndir á Instagram og klappa í andlitið á fólki en það skilar þér ekki sigrum,“ sagði Diana Taurasi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.