Viðskipti innlent

Samskip siglir til Hull í stað Immingham

Atli Ísleifsson skrifar
Flutningaskip Samskipa affermt í Hull í Bretlandi.
Flutningaskip Samskipa affermt í Hull í Bretlandi. Vísir/samskip
Samskip mun hætta að sigla skipum sínum til Immingham á austurströnd Bretlands og mun þess í stað leggja að höfn í Hull.

Í tilkynningu kemur fram að Samskip sé stærsti viðskiptavinur hafnarinnar í Hull og að þar muni mætast siglingar til og frá Íslandi og flutningakerfi félagsins í Evrópu.

Haft er eftir Guðmundi Þór Gunnarssyni, framkvæmdarstjóra rekstrarsviðs Samskipa, að breytingin muni leiða af sér styttri viðkomutíma skipanna í Bretlandi. Engin breyting verði á móttöku lausavöru enda skammt á milli hafnanna í Hull og Immingham. Því verði vöruhús Samskipa áfram á sama stað og áður.

Í tilkynningunni segir að rekja megi sögu hafnarviðskipta í Hull allt aftur á þrettándu öld. „Það var hins vegar 1773 sem Hull Dock Company var stofnað og fyrsta höfnin var byggð. Þar hefur því verið hafnarstarfsemi óslitið í 245 ár. Núna er höfnin í eigu Associated British Ports og um hana fara samkvæmt nýjustu tölum um 9,3 milljónir tonna af varningi á ári hverju,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×