Handbolti

Eyjakonur fá til sín tvær reyndar landsliðskonur úr atvinnumennsku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arna Sif Pálsdóttir.
Arna Sif Pálsdóttir. vísir/ernir

Kvennalið ÍBV hefur fengið mikinn liðstyrk því tvær reyndar landsliðskonur eru komnar heim úr atvinnumennsku og ætla að taka slaginn með ÍBV í Olís deild kvenna næsta vetur.

ÍBV segir frá því á fésbókarsíðu sinni að félagið hafi samið við þær Örnu Sif Pálsdóttur og Sunnu Jónsdóttur. Auk þess framlengdu þær Ester Óskarsdóttir og Sandra Dís samninga sína við félagið.

Arna Sif Pálsdóttir er þriðja leikjahæðsta handknattleikskona Íslands frá upphafi með 129 landsleiki. Hún er alin upp hjá HK en hefur búið erlendis síðastliðin níu ár og spilað í Danmörku, Frakklandi og nú síðast í Ungverjalandi.

Sunna Jónsdóttir hefur leikið 56 leiki fyrir Íslenska landsliðið. Undanfarin ár hefur hún búið erlendis og spilað sem atvinnumaður, fyrst með BK Heid í Svíþjóð og svo með Skrim Kongsberg og HK Halden í Noregi. Á Íslandi spilaði hún með Fylki og Fram. Hún tók sér frí frá handbolta á síðasta tímabili þar sem hún eignaðist sitt fyrsta barn.

Það er mikill styrkur að fá Örnu og Sunnu til ÍBV enda báðar frábærar bæði innan sem utan vallar, báðar sömdu til tveggja ára. Hrafnhildur Skúladóttir þjálfari er mjög spennt fyrir að fá þær til liðs við sig en hún þekkir vel til þeirra en hún spilaði bæði á móti þeim í félagsliðum og sem samherji í landsliðinu.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.