Handbolti

Hollenskir lærisveinar Erlings unnu fyrri leikinn gegn Svíum

Einar Sigurvinsson skrifar
Erlingur Richardsson þjálfar Hollenska landsliðið.
Erlingur Richardsson þjálfar Hollenska landsliðið. vísir/getty
Holland hafði betur gegn Svíþjóð þegar liðin mættust í undankeppni Heimsmeistaramótsins í handbolta sem fram í Danmörku og Þýskalandi í janúar á næsta ári. Leikurinn fór fram í Hollandi og lauk með eins marks sigri Hollendinga, 25-24. Þjálfari hollenska landsliðsins er Eyjamaðurinn Erlingur Richardsson en Kristján Andrés­son þjálf­ar Svíþjóð.

Leikurinn var hnífjafn frá upphafi til enda. Svíar byrjuðu betur en náðu þó aldrei meira en eins marks forustu.

Í stöðunni 5-4 komust Hollendingar yfir í fyrsta skiptið í leiknum og hélt liðið forskotinu allt til enda. Mest náði Holland þriggja marka forystu um miðbik fyrri hálfleiks 10-7.

Svíar komust þá betur inn í leikinn og aðeins munaði einu marki í liðunum í lok fyrri hálfleiks, en staðan í hálfleik var 13-12 fyrir Holland.

Hollendingar gerðu það sem þurfti til í síðari hálfleiknum og komust Svíar aldrei yfir og að lokum unnu heimamenn eins marks sigur, 25-24.

Næsti leikur liðanna fer fram í Svíþjóð á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×