Umfjöllun og viðtöl: Haukar - KR 83-84 | KR komið yfir í einvíginu

Árni Jóhannsson skrifar
Kári Jónsson, leikmaður Hauka, reynir að komast fram hjá KR-ingnum Kristófer Acox.
Kári Jónsson, leikmaður Hauka, reynir að komast fram hjá KR-ingnum Kristófer Acox. vísir/bára
Það var minnsti mögulegi munur á Haukum og KR í kvöld þegar liðin áttust við í DB Schenker höllinni í þriðju viðureign liðanna í undanúrslitum Dominos-deildarinnar í körfubolta. Varnir liðanna voru góðar á löngum köflum en gestirnir úr Vesturbænum áttu flottari varnarlotur á fleiri tímapunktum og neyddu heimamenn margoft í að nota alla skotklukkuna og margoft láta hana renna út áður en skot náði að ríða af.

Haukar höfðu tveggja stiga forskot í hálfleik, 37-35 og mátti ekki miklu muna á liðunum. KR-ingar náðu að halda Kára Jónss. og Hauki Óskarss. niðri í fyrri hálfleik en Emil Barja skilaði í staðinn flottum leik og hitti hann vel úr sínum skotum. Í sóknarleiknum náðu KR-ingar að nota vagg og veltu óspart og ná í stigin sem þurfti til að vera inn í leiknum en heimamenn spiluðu mjög góðan varnarleik einnig.



Seinni hálfleikur var fjörugri ef eitthvað var og héldur varnirnar áfram að vera góðar hjá báðum liðum en tilfinningin var þannig að KR hafði undirtökin og komst alltaf fyrst á spret en Haukar eiga ansi mörg vopn í vopnabúrinu sínu og náðu alltaf að koma sér aftur inn í leikinn og jafna metin en KR-ingar komust mest sex stigum yfir í seinni hálfleik.



Í fjórða leikhluta var allt í járnum og voru bæði lið minnug þess hvað gerðist í seinasta leik. KR ætlaði ekki að hleypa heimamönnum of langt frá sér og Haukamenn vildu ekki kasta frá sér leiknum en misstu KR-inga samt aðeins frá sér þegar skammt lifði leiks og voru fimm stigum undir þegar minna en mínúta var eftir og fólk var farið að halda að þetta væri í höfn. Haukar héldu nú síður og náðu að skora geggjaðar körfur á meðan KR nýtti vítin til að sigla sigrinum heim, 83-84 í rosalegum körfuboltaleik.



Afhverju vann KR?

KR spilaði á löngum köflum aðeins betri vörn en andstæðingar sínir. Það má líka pæla í því hvort andlegi styrkur liðsins hafi skilað sér í því að menn misstu ekki trú á verkefninu þegar á mót blés og héldu haus þegar á þurfti að halda í blálokin. Enda eru ansi margir úrslitaleikir að baki hjá leikmönnum liðsins á síðastliðnum áratug.

Hverjir stóðu upp úr?

Þegar um er að ræða svona góð lið þá er ekki ótrúlegt að framlag komi úr mörgum áttum. Hjá KR skoruðu fimm leikmenn 10 stig eða meira og hjá Haukum voru það fjórir. Til að taka einhverja út fyrir sviga þá verðum við að segja að Emil Barja hafi verið mikilvægastur fyrir sína menn þegar KR náði að taka Kára Jónss úr umferð á löngum köflum í fyrri hálfleik. Hjá KR var það Brynjar Björnsson sem hitt vel úr skotum sínum á ögurstundu í fjórða leikhluta þegar lítið var eftir og spennan mikil.

Tölfræði sem vekur athygli?

Ég ætla að vekja athygli á því hversu jöfn liðin voru í kvöld. KR vann frákastabaráttuna 45-46, KR tapaði einum færri bolta en Haukar 10 á móti 11 og jafnmargar stoðsendingar voru gefnar eða 20 á lið. Í svona leikjum þá eru það minnstu smá atriði sem skipta sköpum þegar útkljáð er um sigurvegara og í kvöld var það KR.

Hvað gerist næst?

Liðin halda í Vesturbæinn á laugardaginn og spila þar fjórða leikinn. Haukar eru komnir með bakið upp við vegginn fræga og þurfa að vinna í DHL höllinni til að fara ekki í sumarfrí. KR hefur margoft verið í þessari stöðu og gætu komist í úrslit í fimmta skipti í röð.



Emil Barja: Megum ekki vera eins og einhverjar hænur



Hann var að vonum svekktur með úrslitin í kvöld og fannst honum sínir menn vera svolítið ragir þegar á reyndi.

„Þetta var svolítið svipað og síðasti leikur, við vorum ekki jafn lélegir í fjórða leikhluta eða eitthvað svoleiðis, við vorum samt eitthvað ragir við að þora að sækja að körfunni. Þeir settu upp eitthvað afbrigði af svæði sem við áttum í veseni með leysa úr og það vantaði aðeins meiri hreyfingu til að opna svæðin og vera grimmari í því að sækja á körfuna“.



Emil var spurður að því hvort pressan væri að fara illa í Haukamenn en eins og frægt er orðið þá hentu þeir frá sér seinasta leik og töpuðu síðan í kvöld í miklum spennuleik.



„Nei nei, við setjum bara pressu á okkur sjálfir en utanaðkomandi pressa er ekki að hafa áhrif á okkur. Veit ekki hvað þetta er, veit ekki afhverju við klúðruðum seinasta leik. Við vorum miklu betri í kvöld en það voru alltaf einhver grundvallarmistök sem við klúðruðum í vörninni en náðum alltaf að svara í sókninni sem var mjög mikilvægt. Við sýndum meira núna heldur en í fjórða leikhluta seinasta leiks.“



Að lokum var hann beðinn um að leggja mat á hvað þyrfti að breytast fyrir laugardaginn.



„Við þurfum að fara yfir sóknina á móti þessu svæði, eins og á móti Keflavík við höfum verið að hiksta á móti svæðinu. Við þurfum að finna leiðir til að brjóta þetta upp og ekki vera eins og einhverjar hænur heldur vera töffarar og ráðast á körfuna og klára af krafti. Það er aðallega það“.



Brynjar Björnsson: Við hleyptum þeim ekki af stað

„Fyrsti leikhlutinn var það sem breyttist milli leikja. Við brugðum aðeins út af vananum og leyfðum þeim ekki að skora 30 stig í fyrsta leikhluta og þannig komast í gírinn í leiknum“, sagði Brynjar Björnsson fyrirliði KR þegar hann var spurður út í muninn á leikjum tvö og þrjú.

„Við hleyptum þeim ekki af stað, Haukur var t.d. góður í seinni en við héldum honum niðri í fyrri hálfleik og við vorum aggressívari og einbeittari. Við hugsuðum aðeins betur um hverja sókn og hverja vörn þó að við hleyptum þeim í aðeins of mörg sóknarfráköst. Vörnin var flott annars og það skóp þennan sigur“.



Brynjar var spurður út í það hvort að hefðin og reynslan skipti máli í þessum aðstæðum.



„Það er engin spurning að það skipti máli. Við erum þarna nokkrir jálkar sem höfum séð allt áður, ég veit ekki hversu margir titlar eru í þessu liði en það skiptir máli já. Við kunnum þetta og kunnum leikinn en þetta er fyrsti leikurinn í einvíginu sem mér fannst sóknarleikurinn okkar vera aðeins betri og ef við verðum aðeins betri sóknarlega þá erum við til alls líklegir því vörnin okkar er mjög góð. Sóknin hefur verið akkilesarhællinn í allan vetur“.



Hvað þurfa KR-ingar að passa upp á fyrir laugardaginn, verandi kominn með heimavallarréttinn?



„Í rauninni þurfum við ekki að passa neitt sérstaklega. Við þekkjum þetta vel og líður vel á heimavelli. Mér líður vel það og hlakkar mikið til að spila þar. Maður er þakklátur að vera með eftir að hafa handarbrotnað fyrir fjórum vikum, maður er oft fljótur að gleyma hversu skemmtilegt þetta er og á þeim tímapunkti þegar ég brotnaði var ég pínu neðarlega andlega en líður vel núna og ætla að njóta þess að spila körfubolta“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira