„Ég er hundfúll. Mér fannst við ekki spila vel og þetta er fyrsti leikurinn þar sem KR-ingarnir spila betur en við. Við vorum máttlausir og ég var mjög ósáttur við hvernig við komum til leiks. Við vorum undir í baráttunni og töpum út af því,“ segir Ívar í morgun en það náðist ekki að taka viðtal við hann eftir leik í gær.
Ívar talaði nokkuð digurbarkalega eftir tapið gegn KR í öðrum leik liðanna.
„Þeir komu ekki til baka. Við réttum þeim þetta. Við sýndum öllum í húsinu að við erum betra liðið og þeir vita það innst inni,“ sagði Ívar við Vísi og bætti í er hann talaði við karfan.is.
„Þetta var sumargjöf okkar Hafnfirðinga í Vesturbæinn. Við sýndum að við erum betra liðið. KR-ingar þurfa að koma skjálfandi til okkar. Eina sem þeir geta gert er að reyna að æsa leikinn upp til þess að vinna okkur,“ sagði Ívar við karfan.is.
Margir hafa gagnrýnt þessi orð Ívars og sagt óþarfi hjá honum að æsa KR-ingana upp með þessum orðum. Hann sér þó ekki eftir neinu.
„Ég sé ekkert eftir þessu því við vorum búnir að vera betri en KR-ingarnir í tveimur leikjum. Ég sagði hlutina bara eins og þeir voru. Ef þeir geta komið með rök á móti þá er það bara fínt,“ segir Ívar ákveðinn.
„Þetta var viljandi brot. Þannig blasti það við mér. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann lemur okkar menn. Ég held að þetta sé í fjórða eða fimmta skiptið sem hann gerir þetta viljandi,“ segir Ívar ósáttur og bætir við að mikið hafi blætt úr Emil sem sé með glóðarauga í dag.
„Eftir síðasta leik þá gaf hann viljandi olnbogaskot eftir leik. Dómararnir horfðu á þetta og gerðu ekki neitt. Þetta er orðið frekar pirrandi en við þurfum að taka þessu eins og öðru.“
Er þessi frétt er skrifuð liggur ekki fyrir hvort þetta mál verði tekið fyrir hjá KKÍ en Haukarnir eru að íhuga að kvarta.
„Þetta mál er á borði stjórnar og ég kem ekki nálægt því. Ég veit að það var umræða innan stjórnar um að kvarta til KKÍ en ég sagðist ekkert ætla að koma nálægt því.“
Fjórði leikur liðanna fer fram í DHL-höllinni klukkan 20.00 á laugardag.