Glamour

Leið eins og Woody Allen með brjóst

Ritstjórn skrifar
Móðir – kona – meyja. Sumir segja að móðurhlutverkið sé eitt það mikilvægasta í heiminum. Hlutverk sem í senn er það besta og það erfiðasta sem maður tekur sér fyrir hendur á lífsleiðinni. Þrátt fyrir að hlutverkið sjálft hafi breyst í aldanna rás er grunnurinn ávallt sá hinn sami, skilyrðislaus ást. Glamour fékk nokkrar fræknar konur til að deila með okkur sinni reynslu af þessu margslungna hlutverki. Móðurhlutverkið í sinni tærustu mynd, án þess að sykurhúða neitt.

„Þegar þú er móðir ertu aldrei virkilega ein með hugsunum þínum. Móðir þarf alltaf að hugsa sig tvisvar um, einu sinni fyrir sjálfa sig og einu sinni fyrir barnið sitt.“

Sophia Loren, leikkona



Rithöfundinn Auði Jónsdóttur þarf ekki að kynna fyrir lesendum en hún eignaðist son sinn 38 ára gömul. Hún segir að það búi hamingja í þreytunni sem fylgir því að eiga barn, að besta ráðið sem hún hefur fengið sé frá Agli Helgasyni og að í raun sé hún hálfhissa á hvað það á vel við hana að vera mamma.

Hvernig er móðurhlutverkið fyrir þér?

Þegar hamingjan fer tíu í útvíkkun. 

Hvað er erfiðast og hvað er léttast?

Erfiðast er kannski að venjast tilhugsuninni um að bera ábyrgð á manneskju og lífi hennar, að hugsa til þess hversu stórvægileg lítilvæg mistök gætu orðið. Ég er til dæmis alræmd fyrir að verða auðveldlega hrædd þegar sonur minn veikist af leikskólaflensum og fyrst eftir að hann fæddist leið mér stundum eins og ég væri Woody Allen með brjóst. 

Léttast er svo margt sem ég hélt að yrði svo miklu strembnara, til dæmis finnst mér auðvelt að ferðast með son minn og eins hef ég nógan tíma til að skrifa, þó að ég hafi auðvitað þurft að laga vinnutímann að rútínu barnsins. Eiginlega finnst mér, þannig lagað, ekkert erfitt við að vera mamma, enda var ég alveg að verða 38 ára þegar ég átti son minn og aldeilis til í allt saman með öllu tilheyrandi.

Hvernig leið þér þegar þú uppgötvaðir að þú værir ólétt?

Ég var fyrst og fremst hissa, eiginlega alveg gapandi hissa eftir ellefu ára hjónaband, en líka mjög spennt. 

Fékkstu að vita kynið?

Já, ég var svo forvitin að ég fékk ekki við mig ráðið. Ég upplifði tuttugu vikna sónarinn sem ákveðin tímamót á meðgöngunni, við það að vita kynið varð barnið að einstaklingi sem ég gat séð fyrir mér. 

Besta ráðið sem þú hefur fengið varðandi móðurhlutverkið og frá hverjum var það?

Að uppvaskið bíði alltaf en ekki barnið. Þetta ráð gaf Egill Helgason mér á Facebook þegar ég kvartaði þar yfir að allt væri í drasli og ég bara að hangsa með syni mínum. Síðan þá hef ég lifað bæði samviskulaust og samviskusamlega eftir þessu mottói. 

Varstu með einhverja fyrirfram hugmynd um móðurhlutverkið áður en þú eignaðist barn?

Ég hélt kannski að það væri strembnara því ég hafði svo oft hitt þreyttar mæður en svo komst ég að því að það býr hamingja í þreytunni, alveg ný tegund af hamingju.



Hvað hefur komið þér mest á óvart?

Hvað það er mikill félagskapur í barni, þrátt fyrir ungan aldur, og hvað allt verður gaman með barninu, að upplifa veruleikann með augum þess. Sjá allt upp á nýtt! Og í rauninni er ég hissa hversu vel það á við mig að vera mamma því fram eftir öllum aldri hélt ég að mér væri ekki treystandi til þess.

Nýtir þú móðurhlutverkið að einhverju leyti í vinnunni, sem sagt í skrifum þínum?

Já, það er eilíf uppspretta í vangaveltur, bæði í skáldskap og greinaskrifum. Það hefur líka fengið mig til að endurskilgreina ýmislegt í eigin fari og fortíð, í rauninni felst í því ákveðin endurfæðing sjálfsins – nokkuð sem hlýtur að skila sér í skrifum. 

Viðtalið birtist fyrst í sérstökum kafla í júlí/ágústblaði Glamour 2017 tileinkuðu móðurhlutverkinu. 






×