Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Tindastóll 91-73 | Haukar á toppinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Emil Barja, leikmaður Hauka.
Emil Barja, leikmaður Hauka. Vísir/Ernir
Haukar svöruðu fyrir tapið í undanúrslitum Maltbikarsins og tylltu sér við hlið toppliðanna með rótsterkum 91-73 sigri á Tindastól í lokaleik 16. umferðar Dominos-deildar karla.

Haukar lentu tíu stigum undir í öðrum leikhluta eftir stutta skotsýningu Stólanna en eftir það voru Haukar með sterkt tak á leiknum og luku leiknum á 64-38 kafla.

Þegar mest var fór munurinn upp í 24 stig í lokaleikhlutanum en Israel Martin hélt sínum sterkustu mönnum inni lengi þrátt fyrir það til að reyna að laga stöðuna.

Kári Jónsson var stigahæstur í liði heimamanna með 30 stig en í liði gestanna var það Pétur Rúnar Birgisson með 24 stig.

Af hverju unnu Haukar?

Fyrir utan stuttan kafla í fyrri hálfleik voru þeir ákveðnari og voru meira tilbúnir að berjast fyrir stigunum tveimur heldur en Stólarnir.

Gestirnir virtust greinilega sakna Arnars Björnssonar í sóknarleiknum sem var lengst af slakur fyrir utan flottar rispur frá Pétri Rúnari Birgissyni.

Að sama skapi áttu þeir engin svör við leik Hauka með Kára fremstan í broddi í kvöld en þegar þurfti á að halda komu allir með stórar körfur og framlag þegar þurfti á því að halda.

Þessir stóðu upp úr:

Kári var stigahæstur í liði heimamanna en þegar gekk illa fyrir utan þriggja stiga línunna nýtti hann hraða sinn vel til að sækja inn að körfunni og fá auðveldar körfur eða  vítaskot.

Hann stimplaði sig út með látum er hann skildi Axel Kárason eftir með flottri gabbhreyfingu, setti þrist af löngu færi og þakkaði fyrir sig með þrjátíu stig.

Í sóknarleik Tindastóls fékk Pétur stórt hlutverk í fjarveru Arnars og nýtti hann það vel með 24 stig, fjögur fráköst og sex stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Antonio Hester byrjaði leikinn af krafti og setti fyrstu sjö stig Stólanna í leiknum en þegar Haukarnir náðu yfirhöndinni var hann hvergi sjáanlegur.

Hann náði að bæta tölfræði sína á lokamínútum leiksins með átta stigum þegar leikurinn var í raun löngu búinn en Stólarnir þurfa að fá meira frá honum þegar leikurinn er enn jafn.

Tölfræði sem vakti athygli:

Skotnýting Stólanna var ótrúleg á kafla í fyrri hálfleik þegar þeir hittu úr sex þriggja stiga skotum í röð og klúðruðu aðeins tveimur skotum en eftir það snöggkólnuðu gestirnir.

Hittu þeir aðeins úr einu skoti úr opnum leik á síðustu rúmlega sjö mínútum leiksins en á þeim kafla glutruðu þeir forskotinu niður og misstu forskotið fyrir hálfleik.

Hvað gerist næst?

Haukar fara á Egilsstaði og mæta sigurlausum Hattarmönnum þar en Stólarnir taka á móti Keflavík þar sem þeir mega varla við því að misstíga sig í baráttunni um efsta sætið og heimavallarrétt í úrslitakeppninni.

Ívar. Vorum allt of máttlausir framan af „Við vorum rosalega máttlausir framan af, það vantaði alla áræðni í okkur í fyrsta leikhluta og á fyrstu mínútum annars leikhluta,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, að leikslokum eftir góðan sigur.

„Það var hik á sóknarleiknum, of stuttar sendingar í staðin fyrir að klára sóknir sjálfir en í seinni hálfleik var allt annað að sjá til leiksins á báðum endum vallarins. Varnarleikurinn var allt annar og við stoppum erlendu leikmennina þeirra sem við áttum í miklum vandræðum með framan af,“ sagði Ívar og bætti við:

„Menn voru rólegir í hálfleik, það var ljóst að menn þyrftu að berja sig aðeins saman og þá myndi þetta koma. Það þurfti ekkert að vera að rífast og skammast því það vissu allir að við gætum gert betur.“

Haukar lögðu upp með að ýta Stólunum út eftir að hafa leyft þeim að stjórna teignum í leik liðanna í Maltbikarnum á dögunum.

„Stólarnir falla mikið inn í teiginn og við töluðum um það rétt eins og í bikarleiknum að við vildum falla út og fá skotin þar. Við hittum ekki skotunum þann daginn en í dag vorum við að hitta vel og þá þurftu þeir að ýta út sem skapaði pláss fyrir aðra í teignum.“

Pétur Rúnar: Náðum aldrei að svara í seinni hálfleik„Það er hárrétt hjá þér, við byrjum leikinn vel og náum þessu tíu stiga forskoti en þeir svara og við fáum skyndilega fjórtán stig í grillið á okkur,“ sagði Pétur Rúnar Birgisson, bakvörður Stólanna, aðspurður út í kaflaskiptan leik gestanna.

„Þeir byrja seinni hálfleikinn mun betur en við og við náðum aldrei að svara þessu með neinu áhlaupi eins og við áttum í fyrri hálfleik nema undir lokin þegar við náum að minnka þetta í fjórtán. Við vildum ná þessu undir þrettán til að halda innbyrðis en það gekk ekki upp.“

Aðspurður hvað hefði farið úrskeiðis þegar þeir misstu tíu stiga forskot og lentu 24 stigum undir kunni Pétur ekki á því svör.

„Virkilega góð spurning, við héldum kannski að þetta myndi koma að sjálfu sér og fórum úr okkar leik, fara einn-á-einn eða í skotin strax sem gengur ekki gegn jafn góðu liði.“

Pétur axlaði ábyrgð á tapinu er undirritaður spurði út í skort á framlagi frá lykilmönnum liðsins.

„Það er líka bara á mér og Friðriki að koma öllum betur inn í leikinn, þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða og bæta.“

Kári: Eigum heima við topp deildarinnar„Við byrjum þetta flatt og ekki í takti í varnarleiknum en þetta fer að smella í öðrum leikhluta og þá fórum við að loka betur á þá,“ sagði Kári Jónsson, bakvörður Haukaliðsins, sáttur að leikslokum.

„Þá fórum við að stöðva þessi opnu skot, þeir voru búnir að hitta fáránlega vel á köflum en að sama skapi vissum við að þetta væru okkar mistök að skapa þessi færi. Við vissum hvað við áttum að gera og gátum gert betur,“ sagði Kári og bætti við:

„Þetta er ekki flókið í körfubolta, ef þú gefur mönnum opin skot þá munu þeir refsa þér. Þegar þú ferð að pressa og fá andstæðingin til að flýta sér þá fara skotin að klikka.“

Með sigrinum komust Haukar upp að toppsætinu á ný ásamt KR og ÍR.

„Þar eigum við að vera að okkar mati, þetta er þétt deild og hvaða leikur skiptir máli. Þessi leikur skipti töluverðu máli og við unnum það og náðum um leið innbyrðis viðureigninni á þá.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira