Enski boltinn

Wenger: Líklegt að Alexis Sanchez fari til Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sanchez fagnar hér marki með Arsenal.
Alexis Sanchez fagnar hér marki með Arsenal. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, viðurkennir að líklegast sé nú að Sílemaðurinn Alexis Sanchez fari til Manchester United.

Það virðist því fátt koma í veg fyrir að Alexis Sanchez klæðist búningi Manchester United og spili fyrir Jose Mourinho það sem eftir lifir tímabilsins.

Samningur Alexis Sanchez og Arsenal rennur út í júní og hann hefur ekki viljað framlengja hann. Sanchez er aftur á móti sagður hafa náð samkomulagi um kaup og kjör í fjögurra og hálfs árs samningi við Manchester United.

„Ég hef unnið með félagsskipti í 30 ár og það er líklegt að það verði af þessu. Það getur hinsvegar líka allt klikkað á hverri stundu,“ sagði Arsene Wenger við BBC.

Arsene Wenger segir það líka vera möguleika á því að Henrikh Mkhitaryan kom til Arsenal og verði hluti af kaupum Manchester United á Alexis Sanchez.

„Ég hrifinn af leikmanninum. Við spiluðum margoft á móti honum þegar hann var með Dortmund. Hann kann að meta gæði okkar spilamennsku. Launin verða ekki vandamál,“ sagði Wenger um hinn 28 ára gamla Mkhitaryan.





Wenger talaði líka um það að hann ætli sér að nota Alexis Sanchez á móti Crystal Palace um helgina svo framarlega að það verði ekki búið að ganga frá sölunni á honum.

„Það er ekkert vandamál með hugarfar Sanchez. Hann var mættur með fulla einbeitingu á æfingu í gær. Hann er 29 ára gamall og næsti samningur hans verður auðvitað mjög mikilvægur fyrir hann,“ sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×