Bandaríski bakvörðurinn Lewis Clinch Jr. er genginn í raðir Grindavíkur í Dominos-deild karla í körfubolta en þetta kemur fram á karfan.is.
Þetta er í þriðja sinn sem Clinch spilar með Grindavík en veturinn 2013-2014 varð hann bikarmeistari með liðinu og 2016-2017 komst liðið í lokaúrslitin en tapaði í oddaleik fyrir KR.
Grindavík á stórleik gegn Keflavík í Dominos-deildinni í kvöld og er vonast til að Clinch fái keppnisleyfi fyrir kvöldið. Hann lenti í morgun og mætti á æfingu eftir hádegið.
Grindavík vann Breiðablik naumlega í fyrstu umferð deildarinnar en tapaði svo fyrir nýliðum Skallagríms í annarri umferðinni.
Grindjánar létu Bandaríkjamanninn Terrel Vinson fara eftir að hann sleit krossband í síðasta leik og þá var grískur Bosman-leikmaður sömuleiðis sendur heim.

