Fjárfestingasjóðurinn PAI Partners gerði í morgun 1,6 milljarða evra yfirtökutilboð í evrópska drykkjarvöruframleiðandann Refresco Group, en stærstu einstöku hluthafar þess eru íslenskir fjárfestar og fyrirtæki. Jafngildir það um 198 milljörðum króna. Stjórn Refresco, sem er skráð á markað í Hollandi, sagðist í tilkynningu myndu skoða tilboðið „vandlega“.
Hlutabréf í félaginu snarhækkuðu um meira en níu prósent í verði eftir að tilkynnt var um tilboðið.
Þetta er í annað sinn á árinu sem fjárfestingasjóðurinn gerir yfirtökutilboð í Refresco. Fyrra tilboðið, frá því í vor, hljóðaði upp á 1,4 milljarða evra en því var hafnað.
Eignarhaldsfélagið Ferskur Holding er stærsti einstaki hluthafi drykkjarvöruframleiðandans með liðlega 14,5 prósenta hlut. Stoðir, áður FL Group, á tæplega níu prósenta hlut í Refresco í gegnum eignarhaldsfélagið, en auk Stoða er Ferskur Holding í eigu Kaupþings og félags í eigu Arion banka og Þorsteins M. Jónssonar, fyrrverandi aðaleiganda Vífilfells og stjórnarmanns í FL Group.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í apríl keyptu íslenskir fjárfestar ásamt TM rúmlega fimmtíu prósenta hlut í Stoðum af Glitni HoldCo og erlendum fjármálastofnunum. Auk TM samanstóð kaupendahópurinn af félögum á vegum Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group, Einari Erni Ólafssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Örvari Kjærnested, fjárfesti og stjórnarmanni í TM, og Magnúsi Ármanni, fjárfesti og fyrrverandi stjórnarmanni í FL Group.
Jón hefur setið í stjórn Refresco frá árinu 2009.
200 milljarða yfirtökutilboð í Refresco
Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Mest lesið

„Sem betur fer eru aðrir fiskar í sjónum“
Viðskipti innlent

Kvika hafi grætt töluvert á því að hafna upphaflegum tilboðum
Viðskipti innlent

Hagnaðist um tæpar sjötíu milljónir króna
Viðskipti innlent

Arion og Kvika í samrunaviðræður
Viðskipti innlent

Svona munu stækkuð Skógarböð og hótel líta út
Viðskipti innlent

Eyþór hættur sem framkvæmdastjóri Hopp
Viðskipti innlent


Sætta sig ekki við höfnun Kviku
Viðskipti innlent

Skrautleg saga laganna hans Bubba
Viðskipti innlent

Starbucks opnaði á Laugavegi í dag
Viðskipti innlent