Sprotafyrirtækin Travelade og TotalHost hafa náð samkomulagi um sameiningu félaganna en bæði starfa þau í ferðaþjónustu. Hið sameinaða félag mun starfa undir merkjum Travelade.
Í tilkynningu segir að TotalHost geri leigusölum sem leigja íbúðir sínar ferðamönnum, til dæmis í gegnum Airbnb, „kleift að fá greidda ákveðna þóknun frá ferðaþjónustuaðilum fyrir að mæla með hágæða afþreyingu til ferðalanga.
Travelade er samfélags- og upplýsingavefur fyrir ferðamenn sem gerir fólki kleyft að finna og bóka afþreyingu eftir sínum persónulega ferðasmekk á einfaldan og skemmtilegan hátt. Travelade er nú þegar starfandi á Íslandi og í Bosníu og mun félagið opna á fleiri mörkuðum á næstunni samhliða því að efla starfsemi hér á Íslandi verulega.“
Í sameinuðu félagi Travelade og TotalHost munu leigusalar fá persónulega ferðasíðu með fjölbreyttu úrvali af dagsferðum, bílaleigum og öðrum upplýsingum fyrir ferðamenn.
